Mörður neitar að víkja

Mörður Árnason, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar.
Mörður Árnason, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ernir

Mörður Árnason, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, telur sig ekki vanhæfan til að sitja í stjórn Ríkisútvarpsins (RÚV) og vill að Alþingi úrskurði um veru hans í stjórninni. Var þetta meðal þess sem fram kom á stjórnarfundi RÚV sem haldinn var í dag.

Fjöl­miðlanefnd tel­ur það ekki sam­ræm­ast lög­um að Mörður sitji í stjórn RÚV vegna setu hans á Alþingi sem varaþingmaður í viku í júní síðastliðnum. Mörður hef­ur hins vegar setið í stjórn RÚV frá því í janú­ar á þessu ári.

„Hann telur sig ekki vanhæfan og vill að Alþingi veiti úrskurð í þessu máli,“ segir Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður RÚV, í samtali við mbl.is en hon­um barst at­huga­semd Fjöl­miðlanefnd­ar laust upp úr há­degi í dag ásamt bréfi frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Verður málinu því vísað til Alþingis og mun þá annað hvort forseti þingsins eða skrifstofustjóri veita úrskurð að sögn Guðlaugs.

„Við ræddum þetta mál fram og til baka. Hann taldi sig ekki vanhæfan og vék ekki af fundi nema þegar hans málefni voru rædd,“ segir Guðlaugur en Mörður hefur einnig neitað að víkja tímabundið úr stjórninni á meðan beðið er niðurstöðu frá Alþingi.

Fram kemur í 9 gr. laga nr. 23/​2013 um Rík­is­út­varpið að kjörn­ir full­trú­ar til Alþing­is og sveit­ar­stjórna séu ekki kjörgeng­ir í stjórn Rík­is­út­varps­ins, og tel­ur Fjöl­miðlanefnd að Mörður upp­fylli því ekki skil­yrði þess að telj­ast hæf­ur til stjórn­ar­setu í stjórn RÚV.

Mörður vildi ekki tjá sig um málið þegar mbl.is leitaði viðbragða hans fyrr í dag held­ur vísaði hann til orða sinna í Morg­un­blaðinu. „Sem varaþingmaður þá er ég ekki kjör­inn full­trúi [...] Hvorki ég, þingið né rík­is­stjórn­in gerðu at­huga­semd­ir við þetta,“ var haft eft­ir Merði í Morg­un­blaðinu í dag.

Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður RÚV.
Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður RÚV. Mbl.is
Útvarpshúsið í Efstaleiti.
Útvarpshúsið í Efstaleiti. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert