Telja Mörð vanhæfan til stjórnarsetu

mbl.is/Eva Björk

Fjölmiðlanefnd telur það ekki samræmast lögum að Mörður Árnason, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, sitji í stjórn RÚV vegna setu hans á Alþingi sem varaþingmaður í viku í júní sl. Mörður hefur setið í stjórn RÚV frá því í janúar sl.

Í 9 gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið segir að kjörnir fulltrúar til Alþingis og sveitarstjórna séu ekki kjörgengir í stjórn Ríkisútvarpsins, og telur Fjölmiðlanefnd að Mörður uppfylli því ekki skilyrði þess að teljast hæfur til stjórnarsetu í stjórn RÚV.

Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður RÚV, segir í samtali við mbl.is að málið verði tekið fyrir á stjórnarfundi RÚV sem hefst nú síðdegis, en honum barst athugasemd Fjölmiðlanefndar laust upp úr hádegi í dag ásamt bréfi frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

„Okkur ber að fara yfir málið að ósk mennta- og menningarmálaráðuneytisins,“ segir Guðlaugur. Hann segir erindi Fjölmiðlanefndar koma sér mjög á óvart, en segir að ef túlkun Fjölmiðlanefndar sé með þessum hætti þá beri stjórninni að taka afstöðu til þess.

Guðlaugur segir að á fundinum verði farið yfir skipan Marðar í stjórn RÚV og mun niðurstaða fást á fundinum.

Mörður vildi ekki tjá sig um málið þegar mbl.is leitaði viðbragða hans heldur vísaði hann til orða sinna í Morgunblaðinu í dag. „Sem varaþingmaður þá er ég ekki kjörinn fulltrúi [...] Hvorki ég, þingið né ríkisstjórnin gerðu athugasemdir við þetta,“ var haft eftir Merði í Morgunblaðinu í dag.

Mörður Árnason, fyrrv. þingmaður Samfylkingarinnar.
Mörður Árnason, fyrrv. þingmaður Samfylkingarinnar.
Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður RÚV.
Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður RÚV.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert