Óttast að lögreglan sæki þau

Þau Wael, Feryal, Jana og Jouli kunna vel við sig …
Þau Wael, Feryal, Jana og Jouli kunna vel við sig á Íslandi og vilja vera hér áfram.

„Við getum ekki farið á götuna aftur,“ segir Wael Aliyadah, sýrlenskur flóttamaður sem synjað hefur verið um efnislega meðferð á hælisumsókn sinni. Wael og kona hans Feryal Aldahash hafa dvalið hér á landi með dætrum sínum, Jouli og Jönu í fimm og hálfan mánuð en nú stendur til að flytja þau aftur til Grikklands.

Á morgun munu Wael, Feryal og stuðningsmenn þeirra afhenda innanríkisráðherra lista með hátt í 5.000 undirskriftum þar sem skorað er á Útlendingastofnun að falla frá fyrri ákvörðun sinni og veita þeim dvalarleyfi umsvifalaust.

„Við vorum í Grikklandi í eitt ár. Við fórum yfir eina á og gengum yfir fjöll í tvo daga til að komast þangað. Ég hélt á stærri stelpunni og konan minn á þeirri yngri. Við vildum halda áfram yfir landamærin en gríska ríkisstjórnin leyfði það ekki. Þess vegna neyddumst við til að sækja um hæli. Nýja ríkisstjórnin opnaði landamærin og sagði „Ef þið viljið fara til Evrópu farið þið bara,“ og þess vegna komumst við til Íslands,“ segir Wael.

Þar sem Wael og fjölskyldu hans var veitt hæli í Grikklandi ber Útlendingastofnun ekki skylda til að taka umsókn þeirra fyrir hér á landi. Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, hefur þó lýst því yfir að Grikkland sé ekki öruggt land og Wael telur að þar bíði þeirra ekkert annað en lífið á götunni.

Hann segir dætur sínar, sem eru þriggja og fjögurra ára gamlar hinsvegar kunna afar vel við Ísland. Það gera þau hjónin einnig og hafa þau þegar hafið íslenskunám og segir hann tungumálið ekki verða þeim fjötur um fót lengi. Hér vilji fjölskyldan búa, starfa og um fram allt lifa.

„Það er frábært að vera hérna. Við erum hamingjusöm, börnin eru á leikskóla, við höfum þak yfir höfuðið, í okkur og á, mannréttindi fyrir börn og fullorðna,“ segir hann óðamála. „Engin meiri gata fyrir okkur. Engin meiri gata.“

Hann segist finna fyrir miklum stuðningi frá Íslendingum sem hafi tekið þeim eins og fjölskyldu sinni. Þeim sé hinsvegar ekki rótt og hafi áhyggjur á hverjum degi.

„Við óttumst að einn daginn komi lögreglan og fari með okkur í burtu, sendi okkur til baka. Við getum ekki farið aftur á götuna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert