Flugvél WOW air, sem var að koma frá Gatwick í Lundúnum í gærkvöldi þurfti fyrst að lenda á flugvellinum á Akureyri vegna mikillar snjókomu á flugvellinum í Keflavík. Vélinni var síðan flogið til Keflavíkur og lenti hún þar klukkan fjögur í nótt. Samkvæmt áætlun átti vélin að lenda í Keflavík klukkan 22:50.
Miklar seinkanir voru einnig á tveimur vélum Icelandair í gærkvöldi vegna snjókomunnar en ryðja þurfti flugbrautina svo hægt væri að lenda á Keflavíkurflugvelli seint í gærkvöldi.
Vél Icelandair sem var að koma frá Kaupmannahöfn átti að lenda klukkan 22:20 en lenti fjórar mínútur eftir miðnætti og flug Icelandair frá Lundúnum lenti klukkan 00:14 í stað 23:35.
Flug WOW air frá Boston sem átti að lenda klukkan 4:05 í morgun lenti hins vegar ekki fyrr en klukkan 5:34.
Snjókoma í Keflavík veldur vandræðum