Öll börnin í Kulusuk fengu gjafir

Ljósmynd/Hrókurinn

Börnin í Kulusuk tóku á móti jólasveinum Skákfélagsins Hróksins og Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands, með söng og gleði þegar efnt var til hátíðar í grunnskólanum í þessum næsta nágrannabæ Íslands á þriðjudag. Öll börnin í leikskólanum og grunnskólanum fengu sérmerkta jólapakka með margvíslegum glaðningi, sem fjölmörg íslensk fyrirtæki og einstaklingar lögðu til.

Kemur þetta fram í tilkynningu frá skákfélaginu.

Jólapakkaferðin til Kulusuk markar lok á frábæru starfsári hjá Hróknum og Kalak. Félögin hafa staðið fyrir sex ferðum á þessu ári til Grænlands til að útbreiða fagnaðarerindi skáklistar, gleði og vináttu, og í september kom tíundi hópur 11 ára barna frá litlu þorpunum á Austur-Grænlandi til Íslands til að læra sund og kynnast íslensku samfélagi.

Liðsmenn Hróksins og Kalak flugu til Kulusuk í boði Flugfélags Íslands (FÍ), sem er helsti bakhjarl Grænlandsverkefnanna. Flugvél FÍ beið á flugvellinum í Kulusuk meðan hátíðin var haldin í skólanum, auk þess að flytja þá rúmlega 20 kassa sem þurfti undir gjafirnar. 

Meðal fyrirtækja sem tóku þátt í þessu skemmtilega verkefni eru Ikea, Toyota, Sólarfilma, Íslandsbanki, Heimilistæki, Zo-On, Jói útherji og Penninn. Þá lögðu prjónahópar í Gerðubergi og Rauða krossins í Reykjavík til mikið af vönduðum og góðum prjóna- og ullarfatnaði, og öll börnin fengu glaðning frá Nóa Síríusi. Þá fengu útskriftarnemendur í 10. bekk spjaldtölvur að gjöf.

Í grunnskólanum í Kulusuk eru nú 45 börn og 10 börn í leikskólanum. Hróksmenn hafa á þessu ári heimsótt krakkana í Kulusuk þrisvar sinnum, og þar er blómstrandi skákáhugi. Þá hafa öll börn í bænum 11 ára og eldri komið til Íslands til að læra sund, svo sterk bönd eru milli Íslands og þessa næsta nágrannabæjar okkar. 

Leiðangursmenn í jólapakkaferðinni voru Hrafn Jökulsson, Stefán Herbertsson, Róbert Lagerman og Garpur I. Elísabetarson. 

Justine Boassen skólastjóri og hennar fólk tóku jólasveinunum tveim höndum og voru hinir íslensku gestir líka leystir út með gjöfum. Heimsókin var afar vel skipulögð af hálfu skólans.

Kraftmikið starf er framundan á Grænlandi. Í janúar verður Toyota-skákhátíð haldin í Nuuk, í febrúar verður Polar Pelagic-hátíð á Ammassalik-svæðinu, um páskana liggur leiðin til Ittoqqortoormiit og í maí verður Flugfélagshátíð í Nuuk. Þá eru einnig fyrirhugaðar skákhátíðir í Ilulissat og Kangerlussuaq.

Ljósmynd/Hrókurinn
Ljósmynd/Hrókurinn
Ljósmynd/Hrókurinn
Ljósmynd/Hrókurinn
Ljósmynd/Hrókurinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert