Skotin fljúga á milli Gylfa og Bjarna

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sendi ríkisstjórninni tóninn í forsetabréfi ASÍ í dag þar sem hann sagði ríkisstjórnina ala á ójöfnuði og misskiptingu. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, svarar Gylfa á Facebook í dag, en þar segir hann að í ár sé um mestu kaupmáttaraukningu síðari ára að ræða og að verðbólga hafi verið lág. Segir hann að bölsótast sé yfir ójöfnuði hér á landi, þó hér sé meiri jöfnuður en þekkist hjá samanburðarþjóðum.

Í forsetabréfinu segir Gylfi að í skattalagabreytingum hafi ýmist verið lögð áhersla á að draga úr álögum á þá efna- og tekjumeiri, bæði fólks og fyrirtækja, eða færa álögur af lúxusvörum en viðhalda eða auka álögur á matvæli með þeim afleiðingum að misskipting eykst verulega.

„Þó þessi forgangsröðun Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í tekju- og skattamálum komi ekki beinlínis á óvart er ljóst að þetta hefur torveldað verulega vinnu aðila vinnumarkaðar við að reyna að skapa grundvöll fyrir meiri sátt í samfélaginu. Fátt veldur jafn mikilli reiði meðal launafólks og almennings en óréttlát tekjuskipting,“ segir Gylfi.

Þá segir hann að veiking tekjugrunns ríkissjóðs hafi valdið því að endurreisn og uppbygging velferðarkerfisins í kjölfar hrunsins lætur bíða eftir sér og nýtur ekki nauðsynlegs forgangs.

Forsetabréf Gylfa má lesa í heild hér

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

 

Bjarni svarar þessu með að segja yfirlýsingu Gylfa sæta mikilli furðu. „Einhver myndi telja ástæðu fyrir leiðtoga launþega að fagna mestu kaupmáttaraukningu seinni ára. Og lágri verðbólgu.
En nei, það er allt að fara til andskotans heyrist manni. Bölsótast yfir ójöfnuði á Íslandi þó hér sé meiri jöfnuður en þekkist hjá samanburðarþjóðum.“

Þá segir Bjarni að tekjuskattur á millitekjufólk sé að lækka og vörugjöld og tollar að hverfa, en að jafnvel því sé mótmælt sem ósanngirni.

„Ég vek athygli á því að allur tekjuskattur ríkisins frá fyrstu sjö tekjutíundunum fer aftur út í barnabætur og vaxtabætur. Einungis þrjár efstu tekjutíundirnar skila hreinum tekjum til ríkisins.
Ef spurt er: Mun hagur Íslendinga batna 2016 samkvæmt spám? Ráðstöfunartekjur aukast? Bætur hækka? Kaupmáttur vaxa? Atvinnuleysi haldast lágt? - þá er svarið: já, já, já, já, já.
Verum jákvæð,“ segir Bjarni að lokum.

Yfirlýsingar Gylfa Arnbjörnssonar í dag sæta mikilli furðu. Einhver myndi telja ástæðu fyrir leiðtoga launþega að fagna...

Posted by Bjarni Benediktsson on Tuesday, 22 December 2015
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka