Ásatrúarfélagið hefur orðið fyrir miklu áreiti frá erlendum ferðamönnum og fjölmiðlum utan úr heimi sem og fræðimönnum í ár.
Hefur félagið orðið að bregðast við með því að banna utanaðkomandi fólki að trufla samkomur með myndatökum og með því að svara rafrænum pósti með sjálfvirkum svörum.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði að mikið ónæði hafi verið í ár. Erlendir blaðamenn hafi ekki verið flugur á vegg heldur sem flugur ofan í matnum á samkomum ásatrúarmanna. Þennan ágang megi fyrst og fremst rekja til byggingar hofs í Öskjuhlíð.