Miðbær Reykjavíkur var pakkaður af fólki í kvöld í dásamlegu veðri þar sem ekki hreyfði vind og lítil hvít snjókorn féllu af himni, einskonar himnaskraut. Allir í jólaskapi og flestir virtust vera búnir að klára innkaupin. Svona lýsir blaðamaður mbl.is stemmningunni í miðbænum í kvöld. Ræddi hann við verslunar- og veitingahúsaeigendur sem sögðu jólasöluna hafa verið góða í ár. Ljósmyndari var með í för og tók myndir af gestum og gangandi.
Á svellinu við Ingólfstorgi var mikið um börn að leika sér og svellið fullnýtt. Þá fengu margir sér jólaglögg eða kakó úr básunum sem standa við hlið svellsins og almennt var góður andi yfir öllu. Sjá mátti jólasveina á vappinu um bæinn og nokkra að beina fólki inn á veitingastaði til að hvíla sig aðeins eftir gönguna í kvöld.
Blaðamaður mbl.is segir að áberandi fáir hafi verið með innkaupapoka og að það bendi til þess að fólk hafi verið búið að ganga frá innkaupum. Þá hafi líka lítið verið um stress og enginn hlaupandi um. Víða hafi einnig mátt heyra börn á gangi með foreldrum sínum syngjandi jólalög fyrir sig sjálf og hafi sett punktinn yfir einstaklega jólalegt kvöld í bænum.
Jakob Einar Jakobsson, eigandi Jómfrúarinnar, segir að mikið hafi verið að gera í dag. „Mjög fínt að gera í allan dag, enda alltaf gaman á Þorláksmessu,“ sagði hann, en daginn fyrir jól var rauðsprettan vinsælasti rétturinn, mun vinsælli en hefðbundinn jólamatur.
Fríða J. Jónsdóttir, skartgripahönnuður á Skólavörðustíg, var einnig ánægð með jólasöluna í ár. Sagði hún í samtali við blaðamann að verslunin í dag og fyrir þessi jól hefðu gengið mjög vel.
Á Íslenska barnum hitti blaðamaður hóp af fólki sem var að skála, en þrjú af fjórum í hópnum voru Íslendingar sem eru búsettir erlendis en komu heim fyrir jólin. Sögðust þau vera búin að öllu, þótt þau væru „nýlent á klakanum.“
Annar hópur sem blaðamaður hitti á var með sömu sögu og sagði allan undirbúning frágenginn, aðeins hafi þurft að klára að versla smávegis fyrr í dag. „Jólin eru tilbúin og ekkert stress,“ sagði Þór Steinarsson í hópnum og tók Aníta Rut Hilmarsdóttir undir með honum: „Allt er klárt.“
Vilborg Saga Stefánsdóttir, 6 ára, var einnig á ferð í bænum og fékk að fylgjast með miðbæjarlífinu af háhesti föður síns, Stefáns Reynissonar. Þegar blaðamaður spurði hana um jólin og jólagjafir var hún of spennt fyrir jólahátíðinni til að svara, en ljóst var að henni þótti jólastemmningin í miðbænum skemmtileg.