Ræddu við Ólaf um peningagjöfina frá Sádi-Arabíu

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/Golli

Karim Askari, framkvæmdastjóri stofnunar múslima á Íslandi, segir að fundur forsvarsmanna stofnunarinnar og forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, hafi verið mjög góður þar sem hægt hafi verið að ræða málefni múslima hér á landi milliliðalaust. Segir hann að rætt hafi verið um mismunandi menningu, aðlögun að íslensku samfélagi og almennt um ummæli Ólafs um múslima í síðasta mánuði og gjöf 130 milljóna gjöf Sádi-Arabíu til félagsins. Sagt var frá fundinum fyrr í kvöld, en hann átti sér stað á mánudaginn.

Stór áfangi að hitta forseta sinn

Karim segir að félagið hafi óskað eftir fundinum í framhaldi af ummælum Ólafs  á RÚV fyrir um mánuði síðan og opnu bréfi sem félagið sendi frá sér þar sem ummælum forsetans var svarað. Hafði Ólafur meðal annars sagt að fréttir um að Sádi-Arabía væri að styrkja byggingu mosku hefðu komið honum á óvart: „Ég varð eiginlega svo hissa og lamaður við þessa yfirlýsingu,“ sagði Ólafur meðal annars í fréttum RÚV.

Fundurinn var að sögn Karim gagnlegur þar sem bæði forsvarsmenn stofnunarinnar og Ólafur hafi greint frá sínum sjónarmiðum og skoðunum. Segir Karim að þeir hafi lært margt af Ólafi og það hafi verið sérstaklega stór áfangi fyrir múslima á Íslandi að hafa fengið þetta tækifæri til að hitta forseta sinn og spjalla saman.

Karim Asakari, framkvæmdastjóri Stofnunar múslima á Íslandi.
Karim Asakari, framkvæmdastjóri Stofnunar múslima á Íslandi. Ljósmynd/Karim Askari

Ræddu menningarlega gjá og peningagjöf frá Sádi-Arabíu

Sagði hann að meginstef fundarins á mánudaginn hafi verið gjáin sem stundum kemur upp milli menningaheima og að upp geti komið tilvik hér á landi þar sem fólk sér eitthvað í fréttum um aðra menningaheima og misskilur það. Þá hafi verið rætt um fyrrnefnda peningagjöf Sádi-Arabíu til félagsins. Sagði Karim að þeir hefðu ítrekað að henni fygldu engar kvaðir, heldur væri aðeins um styrk að ræða og það hafi verið stofnunin sjálf sem óskaði eftir honum fyrst.

Segir Ólaf hafa verið ánægðan með fundinn

„Hann var mjög ánægður með þetta spjall,“ segir Karim um viðbrögð Ólafs og bætti við að hann hafi sagt að gott væri að heyra þessi sjónarmið beint frá hópi múslima og að þeir hafi verið hreinskilnir í þeim málum sem um væri rætt.

„Vonandi verða fleiri fundir í framtíðinni,“ segir Karim aðspurður um hvort rætt hafi verið um einhver frekari skref í samræðum þeirra á milli. Bætir hann við að í lok janúar verði haldin ráðstefna á Grand hótel um það hvernig best sé að samþætta mismunandi menningu á Íslandi og hvernig múslimar geti orðið hluti af íslensku samfélagi. Segir Karim að þeir hafi boðið Ólafi að vera viðstaddur ráðstefnuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert