Meirihluti borgarstjórnar samþykkti á fundi umhverfis- og skipulagsráðs að auglýsa að nýju breytingar á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar.
Þetta er gert eftir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi fyrr í mánuðinum deiliskipulagið úr gildi. Í því var gert ráð fyrir að neyðarbrautin svokallaða yrði fjarlægð.
Ólöf Örvarsdóttir skipulagsstjóri segir að lögformlegt auglýsingaferli taki að hennar mati allavega 100 daga. „Það sem tekur við núna er að þetta verður sett í lögformlegt auglýsingaferli og þetta fer beint í borgarstjórn sem vonandi staðfestir þessa málsmeðferð. Auglýsingaferlið sjálft er sex vikur en svo koma athugasemdir og þeim þarf að svara,“ segir Ólöf í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.