Árni Júlíusson frétti af því árið 1979 að hann ætti tvær systur í Bandaríkjunum, þá 26 ára gamall, en faðir hans var bandarískur hermaður á Keflavíkurflugvelli í síðari heimsstyrjöld. Tengsl þeirra slitnuðu þó óvænt skömmu eftir þessar fregnir.
Í samtali við Víkurfréttir segist hann aldrei hafa getað hætt að hugsa um systur sínar tvær. „Ég hugsaði með mér að ég yrði að hafa uppi á þeim. En öll árin sem liðu þangað til það varð að veruleika var ég samt oft hálfpartinn búinn að gefa upp vonina,“ segir Árni.
Langþráð ósk um að hitta þær rættist svo í vor eftir að barnabarn hans leitaði þær uppi með hjálp tölvutækninnar. Í kjölfarið var haft samband við þær og þeim sagt að þær ættu bróður á Íslandi sem væri að leita að þeim.
„Þær héldu fyrst að þetta væri kannski Nígeríu-svindl,“ segir Árni og hlær.
Í ágúst síðastliðnum fór Árni á fund systra sinna ásamt eiginkonu sinni og fjórum börnum. „Það var ógleymanleg stund að hitta þær loksins. Þær tóku okkur svo vel. Við grétum og hlógum til skiptis. Það var eins og við hefðum alltaf þekkst og það var skrítin tilfinning.“
Sjá ítarlegri umfjöllun Víkurfrétta