Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að stjórnarandstöðunni beri siðferðileg skylda til að reyna ríkisstjórnarmyndun fái hún til þess nauðsynlegt fylgi í næstu kosningum. Þetta kom fram í þættinum Á Sprengisandi á Bylgjunni þar sem Árni er gestur.
Í þættinum var Árni spurður út í sameiningarhugmyndir sem komu meðal annars upp hjá þingmanni Bjartrar framtíðar, Róberti Marshall, nýlega. Sagði Árni að fyrir sig skipti engu máli hvort og hvernig sameining yrði ef það væri áfram til jafnaðarmannaflokkur, alveg sama hvaða nafni hann héti. Þá sagðist hann einnig vera tilbúinn að vinna með öðrum umbótasinnuðum öflum. Hafði hann áður lýst því yfir að hann sæi Samfylkinguna fyrst og fremst sem opinn flokk sem væri að berjast fyrir félagslegu jafnrétti og opnum markaði, en að flokkurinn væri ekki forskriftar- eða fyrirhyggjuflokkur.
Þá sagði Árni að stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu síðustu ár unnið saman að stóum málum og verið sammála um þau. Nefndi hann sem dæmi stjórnarskrármálið, afstöðu til makrílkvóta og að hafa komið í tvö ár fram með sameiginlegar tillögur um fjárlög.
Í ljósi þess sagði hann stjórnarandstöðuflokkana bera siðferðilega skyldu til að reyna ríkisstjórnarmyndun eftir næstu kosningar fái þeir fylgi til þess. Sagði hann að meðal annars mætti skoða sameiginlega málefnaskrá í stað sameiningar.
Var hann þá spurður hvort óþarfi væri að sameinast og bent sérstaklega á Bjarta framtíð og Vinstri græna. Sagði Árni að ekki væri hægt að ákveða hvort ætti að sameinast eða ekki nema flokkurinn í heild tæki ákvörðun um það. „Ekki hægt að þvinga fólk til ásta,“ sagði hann. Þá sagði hann að Samfylkingin hefði upplifað það í síðustu kosningum að margir vinir Samfylkingarinnar hafi farið yfir í Bjarta framtíð. Sagði hann að þeim hafi verið það opið fyrst þeir töldu skoðanir sínar liggja utan Samfylkingarinnar. Sagðist hann þó ekki sjá tilganginn í því enn. „Sé ekki enn mun á flokkunum,“ sagði Árni.