Telur 2,3 milljörðum illa varið

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Styrmir Kári

„Hitt er alveg skýrt, að 2,3 milljarðar króna eru miklir fjármunir sem gætu runnið til mikilvægari verkefna og Ísland þarf að fara mjög gætilega í því að veita stofnunum undanþágur frá lögum, sköttum og eftirliti ekki síst stofnunum þar sem áhrif Íslands eru engin.“

Þannig lýkur Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, grein á vefsíðu sinni þar sem hann gagnrýnir stofnaðild Íslands að Innviðafjárfestingabanka Asíu (Asian Infrastructure Investment Bank). Bendir hann á að Ísland þurfi að leggja fram stofnfé upp á 2,3 milljarða króna í erlendum gjaldeyri en ávinningur af aðildinni sé mjög óviss. Fimmtungur þess verði greiddur yfir fimm ára tímabil en bankinn geti hvenær sem er kallað eftir hinum 80%.

Frosti segir hlutdeild Íslands í Innviðafjárfestingabanka Asíu verða 0,0179% en atkvæðavægi 0,2778%. Ísland fái hins vegar hvorki fulltrúa í bankaráði né framkvæmdastjórn bankans og muni hafa lítil sem engin áhrif á stefnu og ákvarðanir hans. Þá kveði samþykkir bankans á um að hann og starfsmenn hans njóti undanþága frá lögum og eftirliti. Frosti telur að ekki megi veita slíkar heimildir án sérstaks samþykkis Alþingis sem ekki liggi fyrir.

Markmiðið ekki að hámarka arðsemi hluthafa

Ritað var undir stofnskrá Innviðafjárfestingabanka Asíu í lok júní en 57 ríki eru aðildar að honum undir forystu Kína. Frosti bendir á að hvorki Bandaríkin og Japan til að mynda hafi viljað eiga aðild að bankanum. Hann segir fjármálaráðuneytið telja að aðildin að Innviðafjárfestingabanka Asíu verði til þess að efla góð samskipti Íslands og Asíuríkja og skapað aukin tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf í Asíu. Tilgangur bankans sé þó eingöngu að fjárfesta í Asíu og Eyjaálfu.

Frosti vísar ennfremur í svar frá Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra á Alþingi þess efnis að á fjárfestingunni í Innviðafjárfestingabanka Asíu myndist eign sem sé framseljanleg og seljanleg. Meiri líkur séu á að virði eignarinnar vaxi séu ríki stofnaðilar en ef þau komi að bankanum síðar. Frosti bendir hins vegar á að stofnhlutar séu ekki framseljanlegir nema til bankans sjálfs samkvæmt samþykktum hans og þá á bókhaldslegu virði eigin fjár. Markmið bankans sé ekki að hámarka arðsemi hlutahafa. Hann geti tapað fé en ólíklegt sé að hann græði mikið.

Þingmaðurinn segir Ísland hafa ótal leiðir aðrar til þess að styrkja góð samskipti við Asíuríki en að eiga hlut í Innviðafjárfestingabanka Asíu. Mjög sé á huldu á hvaða hátt það bætir samskipti Íslands og Asíuríkja að landið eigi „agnarlítinn hlut“ í bankanum. Þá sé einnig mjög óljóst hvernig aðild að honum skapi tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf sem ekki séu þegar fyrir hendi. Þannig sé aðild að Innviðafjárfestingabanka Asíu ekki forsenda þess að íslensk fyrirtæki geti komið að verkefnum á vegum bankans samkvæmt samþykktum hans.

Fréttir mbl.is:

Ísland fjárfestir í innviðum Asíu

57 ríki taka þátt í stofnun bankans

Gerist stofnaðili að nýjum banka

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka