Vara við flughálku um allt land

Flughált getur verið á vegum um allt land í dag.
Flughált getur verið á vegum um allt land í dag. Mbl.is/RAX

Í dag má búast við allhvassri suðaustanátt á landinu, en það gæti slegið í storm suðvestanlands um tíma eftir hádegið. Með fylgir rigning og verður hún í talsverðu magni á Suðausturlandi. Þetta kemur fram í viðvörun frá Veðurstofu Íslands, en meðalvindur gæti á tíma orðið yfir 20 metrar á sekúndu.

Þá bendir veðurstofan á að nú hafi hlánað víða á landinu og að vegfarendur ættu að muna að þar sem blautur klaki er á vegum, þar er flughált. Samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi á vakt má búast við að þetta eigi við stærstan hluta landsins, ef ekki allt landið. Þannig sé orðið frostlaust allsstaðar um landið, að undanskildum smá hluta á Norðausturlandi. Þar megi þó gera ráð fyrir að hláni á næstu klukkustundunum.

Sömu skilyrði á vegum í dag og í gær

Segir veðurfræðingur að búast megi við sömu skilyrðum á vegum í dag víða um land og var í gær, en þá urðu fjölmörg umferðaslys sem rekja mátti til hálku. Á vef Vegagerðarinnar má einnig sjá að hált eða flughált er á fjölmörgum vegum víða um land.  

Veðurspá á mbl.is

Landið tvískipt á morgun

Á morgun er útlit fyrir að veðrið á landinu verði tvískipt, því skil munu liggja yfir. Austan skilanna verður hvöss sunnanátt, rigning og hiti allt að 10 stig. Vestan skilanna er hins vegar mun hægari vindur, hiti um eða rétt yfir frostmarki og því hvítnar í þeirri úrkomu sem fellur. Enn er svolítil óvissa í staðsetningu skilanna, en líklegt er að þau liggi í grófum dráttum frá Tröllaskaga til Mýrdalsjökuls og skipti því landinu til helminga. 

Gangandi vegfarendur þurfa ekki síður að passa sig en þeir …
Gangandi vegfarendur þurfa ekki síður að passa sig en þeir sem eru akandi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Einungis“ hvassviðri eða stormur

Þá er lægð fyrir sunnan landið sem gæti nálgast á þriðjudagskvöld. Nýjustu spár gera ráð fyrir að lægðarmiðjan fari hratt til norðurs yfir austurhluta landsins aðfaranótt miðvikudags. Austan lægðarmiðjunnar er búist við vindstreng af styrk fárviðris, sem lemur þá á hafsvæðunum austur af Íslandi. Vindurinn vestan lægðarmiðjunnar verður yfir landinu og er hann einungis (ef svo má að orði komast) af styrk hvassviðris eða storms, segir í viðvörun Veðurstofunnar.

Kort af færð á vef Vegagerðarinnar

Í tilkynningu frá Vegagerðinni nú í morgun kemur fram að Reykjanesbrautin sé greiðfær, en þess fyrir utan er tekið fram að hálka eða flughálka sé á næstum öllum vegum landsins. Þar á meðal á Nesvegi, Suðurstrandavegi, Krýsuvíkurvegi, Sandskeiði, Hellisheiði, Þrengslum, öllum vegum á Snæfellsnesi og Vestfjörðum. Þá sé hálka og snjóþekja á Norðurlandi og hálka á flestum leiðum á Austurlandi. Flughálka er frá Breiðdal og að Höfn en annars er hálka eða hálkublettir með suðausturströndinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert