Barnið komið á sjúkrahús

Þyrla Landhelgisgæslunnar
Þyrla Landhelgisgæslunnar mbl.is/Gúna

Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti á flugvellinum í Reykjavík klukkan 3:40 í nótt eftir erfitt flug austur á land til þess að sækja nýbura sem þurfti að flytja á Landspítalann. 

Ný frétt: Nýburinn enn í rannsóknum

Þyrlan fór frá Reykja­vík klukk­an 17.38 áleiðis í Nes­kaupstað til að sækja tveggja daga gamalt barn sem koma þurfti á sjúkra­hús í Reykja­vík. Ekki var fært fyr­ir sjúkra­flug­vél vegna aðstæðna. Með í för voru sérhæfður læknir og hjúkrunarfræðingur.

Þyrl­an lenti á Höfn í Hornafirði um klukk­an 19:15 og tók eldsneyti þar. Hélt þyrl­an svo aft­ur af stað og hélt út fyr­ir annes á Aust­fjörðum. Upp úr klukk­an 21 var þyrl­an kom­in í mynni Norðfjarðar og hélt inn fjörðinn. Reynt var að lenda á flug­vell­in­um í Nes­kaupstað en varð þyrl­an frá að hverfa vegna svipti­vinda sem voru allt að 70 hnút­ar sem eru um 35 metr­ar á sek­úndu. 

Hélt þyrl­an þá út fyr­ir annes aft­ur og freistaði þess að lenda á Stöðvarf­irði en þar voru veðuraðstæður einnig afar slæm­ar. Að lok­um gat þyrl­an lent á Breiðdals­vík þrátt fyrir mikinn vind, en stöðugan, og var hún lent þar um klukk­an 22:00. Barnið var flutt frá Neskaupstað með sjúkrabifreið og fékkst leyfi til að fara í gegnum nýju göngin þar sem Oddskarð var illfært. Þaðan var flogið af stað til Hafnar í Hornafirði þar sem eldsneyti var tekið á þyrluna.

Mikill var storm­ur á Aust­fjörðum og meðfram suður­strönd­inni sem ger­ði aðstæður all­ar mun erfiðari, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Land­helg­is­gæsl­unni í gærkvöldi. 

Þetta var því löng og ströng vakt hjá áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar sem var að nánast stöðugt frá klukkan 13:40 í gærdag er hún fór austur í Árnessýslu til þess að taka þátt í leit við Ölfusá og þangað til lent var á Reykjavíkurflugvelli klukkan 3:40 í nótt.

Erfiðar aðstæður í sjúkraflugi

Langt flug með nýbura

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert