Krapið flæddi inn í þrjú herbergi

Það er allt á floti á Austurlandi
Það er allt á floti á Austurlandi Mynd/Eiður Ragnarsson

Krapaflóð féll í Hrafnkelsdal á Austurlandi nú rétt í þessu en flóðið skall á bænum Aðalbóli. Krapaflóð er ef til vill eins og orðið gefur til kynna flóð sem er blanda af vatni og snjó. Páll Pálsson býr á Aðalbóli en hann segir að það sé mesta furða hvað húsið hafi sloppið vel miðað við að flóðið hafi skollið á því. Þó hafi flætt inn í þrjú herbergi sem sneru að fjallshlíðinni auk geymslu.

Krapaflóðið var stórt og náði upp undir glugga á efri hæð hússins og krap er í herbergjum á neðri hæð.

Páll segir að hann hafi sloppið ómeiddur, „Ég var bara í réttu herbergi,“ segir hann og bætir við að rafmagnið hafi haldist á. 

Aðalsteinn Sigurðarson er nágranni Páls og er nýmættur á vettvang. Hann segir að auk herbergjanna hafi bíll sem stóð aftan við húsið gjöreyðilagst. Vatnið hafi nú lekið að mestu frá og snjórinn sé farinn að þéttast svo að nú verði hægt að meta aðstæður og grípa til viðeigandi ráðstafana. 

Samkvæmt tilkynningu frá Landsbjörg er á annan tug björgunarmanna úr Björgunarsveitinni Jökli í Jökuldal nú á leið að Aðalbóli.  

Erfitt er að komast á staðinn þar sem vegurinn er í sundur vegna vatnavaxta. Bændur á svæðinu reyna að komast að bænum, m.a. með því að nota dráttarvélar til að búa til leið fram hjá skarðinu í veginum. Vegagerðin er einnig að senda tæki á staðinn til að laga veginn.

Frá Hrafnkelsdal. Mynd úr safni.
Frá Hrafnkelsdal. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert