Björn Zoëga, læknir og fyrrverandi forstjóri Landspítalans, hefur verið ráðinn forstjóri einkarekna bæklunarspítalans GHP Stockholm Spine Center í Svíþjóð.
Spítalinn gerir flestar hryggjaraðgerðir af öllum spítölum á Norðurlöndum, eða á milli 1.700 og 1.800 aðgerðir á ári.
„Þetta er ótrúlega spennandi og skemmtilegt verkefni sem ég átti ekki von á að fara í,“ segir Björn í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að haft hafi verið samband við sig fyrir tveimur og hálfri viku, og eftir það hafi hlutirnir gerst hratt.
Björn hefur störf í marsbyrjun á næsta ári, en hann mun áfram sinna verkefnum á Íslandi; bæði í stjórn Alvotech og einnig mun hann sinna sjúklingum á Landspítalanum tvo til þrjá daga í mánuði.
Aðspurður segir Björn hann og fjölskylduna ekki flytjast búferlum til Svíþjóðar strax. Hyggst hann sjá til hvernig málin þróast.