Rúða brotnaði og hurð þeyttist úr dyraopi

Bergur Sterki fékk á sig brotsjó við línuróður.
Bergur Sterki fékk á sig brotsjó við línuróður. mbl.is/Ólafur Bernódusson

Rúða brotnaði og hurð þeyttist úr dyraopi sínu þegar Bergur Sterki HU-7 fékk á sig brotsjó á landleið til Skagastrandar úr línuróðri um hádegisbil í dag. Tveir menn voru um borð en þá sakaði ekki en urðu rennblautir frá hvirfli til ilja.

Fyrri frétt mbl.is: Fiskibátur fékk á sig brotsjó

Þorlákur Sveinsson eigandi Bergs Sterka og Brynjar Max Ólafsson fóru í línuróður norðvestur af Skagaströnd í sæmilegasta  veðri í nótt en síðan bætti í vind og sjó eftir því sem á leið. Þeir luku þó við að draga línuna enda var veðrið  farið að skána aftur. Á landleiðinni kom allt í einu stórt brot framan á bátinn og mölbraut miðrúðuna á stýrishúsinu svo sjórinn gekk inn í húsið og sprengdi dyrnar, sem eru beint aftan við gluggann, úr karminum og kastaði þeim aftur á dekk. 

Þorlákur og Brynjar voru svo heppnir að þeir sátu sinn hvoru megin við gluggann sem brotnaði þannig að vatnsþunginn lenti ekki beint á þeim. Aftur á móti blotnuðu þeir upp úr og niður úr og áttu því kalsamt stím fyrir höndum í land. Sem betur fer drapst ekki á vél þannig að þeir sigldu fyrir eigin vélarafli í land. Björgunarskipið Húnabjörg fór þó til móts við Berg Sterka og fylgdi bátnum til hafnar. 

Það var björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Húnabjörg frá Skagaströnd, sem kom og aðstoðaði áhöfnina á Bergi Sterka. Samkvæmt tilkynningu frá Landsbjörg var Húnabjörgin farin úr höfn innan fimm mínútum eftir að útkallið barst. Bergur Sterki var í um 8,5 sjómílum NV af Skagaströnd þegar hann fékk á sig brotið. Húnabjörg kom að bátnum eftir tæplega klukkustundar siglingu. Brugðið var á það ráð að láta Húnabjörgina kljúfa ölduna á leið til hafnar á Skagaströnd og sigldi báturinn í skjóli hennar þangað en þeir komu í höfn um klukkan 14:20.

Hurðin þeyttist úr dyraopi sínu.
Hurðin þeyttist úr dyraopi sínu. mbl.isÓlafur Bernódusson
Brotsjórinn ruddi sér leið inn í stýrishúsið.
Brotsjórinn ruddi sér leið inn í stýrishúsið. mbl.is/Ólafur Bernódusson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert