Charlie Smith, leiðangursstjóri breska gönguhópsins The Coldest Crossing, segir þá félaga hafa verið algjörlega gegnblauta þegar þeir ákváðu að hafa samband við Landsbjörg skömmu fyrir hádegi og óska eftir aðstoð.
„Við lögðum af stað snemma í morgun en veðrið var ekki eins og spáð hafði verið. Við komumst um tveimur kílómetrum frá þeim stað þar sem við höfðum tjaldað um nóttina og þá byrjaði að rigna,“ segir Smith.
„Við hringdum í Landsbjörg til að spyrja ráða og þau sögðust ætla að koma okkur í burtu því það væri mikið óveður á leiðinni. Þau sögðu að ef við myndum halda áfram og eitthvað myndi klikka gætum við orðið fastir aleinir uppi á hálendi. Ég held að það hafi verið rétt ákvörðun hjá okkur að óska eftir aðstoð,“ segir hann.
Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti gönguhópinn upp úr hádeginu þar sem hann var staddur í gönguskálanum Emstrur við Botnaá.
Frétt mbl.is: Þyrla sækir bresku göngugarpana
Í frétt Morgunblaðsins á Þorláksmessu kom fram að hópurinn samanstæði af þremur ungum Bretum sem ætluðu að eyða jólunum á hálendi Íslands og ferðast á skíðum yfir landið á 18 dögum. Kapparnir lögðu á Þorláksmessu af stað úr Hrauneyjum áleiðis í Landmannalaugar, þar sem þeir ætluðu að eyða aðfangadagsmorgni í heitum laugum.
Leiðangurinn er núna á enda. Hópurinn varð fyrir nokkrum hremmingum á leiðinni. Flogið var með einn göngugarp aftur til Bretlands eftir hann fékk slæma bakteríusýkingu fljótlega eftir að leiðangurinn hófst og annan kól á tám. Hann átti að fara í skoðun á sjúkrahúsi í dag.
Tveir bandarískir kvikmyndagerðarmenn hittu göngugarpana þrjá sem eftir voru fyrir viku síðan til að festa ævintýrið á filmu og voru þeir því hluti af hópnum sem sóttur var af þyrlunni.
Þrátt fyrir skakkaföllin segir Smith leiðangurinn hafa verið „ótrúlegustu upplifun sem nokkur gæti óskað sér“ og fegurðin hafi verið mikil. „Þegar við komum upp á hálendið úr Eyjafjarðardal man ég eftir stórfenglegum degi þegar sólin sást á hálfum himninum en fyrir framan okkur var mikill skýjaveggur. Það var ótrúleg sýn,“ segir hann.
„Við höfðum virkilega gaman að því að láta reyna á okkur við aðstæður í náttúrunni sem eru á meðal þeirra erfiðustu á jörðinni. Þetta ferðalag opnaði augu okkar.“
Hann segir ferðalagið ekki hafa verið erfiðara en þeir bjuggust við því í rauninni hafi þeir ákveðið strax í byrjun að búast ekki við neinu ákveðnu. „Ísland er óútreiknanlegt og þess vegna vildum við ekki reyna að reikna út hversu auðvelt eða erfitt þetta yrði. Á endanum olli Ísland okkur engum vonbrigðum. Veðrið var mjög breytilegt og ég man eftir einum degi þar sem snjóaði án þess að það væru nokkur ský á himni. Ég hef aldrei áður séð annað eins.“
Markmið með leiðangri The Coolest Crossing var að veita ungu fólki innblástur til að gera ævintýragjarna hluti. Smith segir að það hafi tekist þrátt fyrir að leiðangurinn hafi ekki klárast.
Hann vill þakka fyrir aðstoðina sem þeir félagar fengu. „Fólkið var yndislegt hvert sem við fórum. Fyrir norðan fengum við að gista heima hjá fólki sem við hittum eða vinum þeirra og allt var gert til að hjálpa okkur.“
Hópurinn fer af landi brott 4. janúar. Á gamlárskvöld verða þeir á Kex Hostel við Skúlagötu og fara svo í miðbæinn til að taka þátt í hátíðarhöldunum. „Við höfum heyrt að gamlárskvöldið á Íslandi sé eitt það skemmtilegasta í heimi og við ætlum ekki að missa af því,“ segir göngugarpurinn.