Svona gengur óveðrið yfir landið

Styrmir Kári

Veðurstofan hefur sent frá sér viðvörun vegna mjög djúprar lægðar sem kemur upp að landinu seint í kvöld og gengur yfir það næsta sólarhringinn þar á eftir. Gert er ráð fyrir að lægðin hafi í för með sér ofsaveður austanlands í nótt og í fyrramálið, eða 25-30 metra á sekúndu, og fárviðri við austurströnd landsins. En hvernig mun óveðrið ganga fyrir sig?

Veðurvefur mbl.is

* Lægðin mun koma upp að suðausturströnd landsins fljótlega eftir miðnætti í kvöld. Ört vaxandi austan- og norðaustanátt verður í kvöld í aðdraganda þess að lægðin kemur upp að landinu og verður síðan víða 18-23 m/s upp úr miðnætti en 23-28 m/s á suðaustanverðu og austanverðu landinu og mikil úrkoma. Hiti verður um eða yfir frostmarki. 

* Þegar líður á nóttina og í fyrramálið fer vindurinn í 25-33 m/s en þegar vindurinn fer yfir 32 m/s er um að ræða fárviðri. Hvassast verður austast á landinu. Þegar líður á nóttina verður vindurinn suðlægari. Talsvert hægari norðaustan og síðar norðanátt verður hins vegar um landið vestanvert. Úrkoma verður í formi rigningar en slyddu á köflum.

* Búist er við að veðrið nái hámarki sínu hér á landi snemma í fyrramálið en vindurinn snýst síðan í suðvestanátt, 18-25 m/s, með skúrum og síðar éljum. Reiknað er með að veðrið fari síðan að ganga niður upp úr hádegi á morgun en þá verður lægðin komin norður fyrir landið. Þá dregur smám saman úr vindinum og það kólnar. Annað kvöld dregur síðan ört úr vindi.

Veðurstofan segir mikilvægt að fylgjast með veðurspám enda þurfi braut lægðarinnar ekki að breytast mikið til þess að miklar breytingar verði á spám. Fólk er hvatt til þess að festa niður lausamuni. Þá megi búast við því að sjávarstaða verði talsvert há og eru eigendur báta hvattir til þess að tryggja báta sína.

Spurt og svarað:

Hvenær verður veðrið verst?

-Hvað vindstyrk varðar er gert ráð fyrir að óveðrið nái hámarki sínu snemma í fyrramálið. Hins vegar verður úrkoman aðallega í kvöld og í nótt og úrkomulaust í fyrramálið.

Hvenær verður veðrið gengið niður?

-Draga mun úr veðrinu upp úr hádegi á morgun og annað kvöld verður komið ágætis veður á landinu. 

Hvar verður það verst?

-Verst verður veðrið austast á landinu, á Austfjörðum og á miðunum þar fyrir utan eins og spáin er núna. Hins vegar þarf ekki mikið til að þetta geti eitthvað breyst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert