Arkitektastofan KRark er að hanna fjölda hótela víðsvegar um landið. Meðal þeirra er 72 herbergja lúxushótel í Laugarási í Biskupstungum sem ber vinnuheitið Hótel Frostrós. Áformað er að opna það haustið 2017.
Hin verkefnin eru 60 herbergja hótel í Ármúla 5, 25 hótelíbúðir á Háteigsvegi 1, hvort tveggja í Reykjavík, 60 herbergja hótel á Óseyrartanga, á milli Þorlákshafnar og Eyrarbakka, og hótel þar sem áður var skemmtistaðurinn Sjallinn á Akureyri. Verða þar 60 herbergi til að byrja með. Áformað er að þessi hótel verði tilbúin á næstu tveimur árum. Mismunandi fjárfestar hafa aðkomu að verkefnunum og fjármagna þau.
Kostnaður við þessi verkefni er trúnaðarmál en ljóst er að hann hleypur á milljörðum. Kristinn Ragnarsson, eigandi KRark, segir fimm önnur hótel, eða íbúðahótel, á teikniborðinu víðsvegar um landið, þ.m.t. á Suðurlandi. Greint verði frá þeim síðar. Hann segir fjárfesta vilja setja fé í svona verkefni. Það sé skortur á gistingu í landinu.