Íþróttafréttamanninum Valtý Birni Valtýssyni var í dag sagt upp störfum hjá 365. Hann hefur verið íþróttafréttamaður um árabil. Jón Gnarr, yfirmaður dagskrársviðs fyrirtækisins, sagði Valtý Birni upp síðdegis í dag.
Hann segist litlar sem engar skýringar hafa fengið á uppsögninni. „Ég leitaði eftir skýringum og var sagt að þetta væri vegna niðurskurðar,“ segir Valtýr. „Þetta kom mér í algjörlega opna skjöldu.“
Valtýr Björn er reynslumikill blaðamaður. Hann hefur verið félagi í Blaðamannafélagi Íslands frá árinu 1987. Hjá 365 hefur hann bæði flutt fréttir í sjónvarpi og útvarpi.
Valtýr varð fyrir alvarlegri líkamsárás í ágúst. „Ég hef nú verið að vinna mig í gegnum það áfall án aðstoðar frá fyrirtækinu,“ segir hann og bætir við að Óskar Hrafn Þorvaldsson, yfirmaður íþróttadeildar 365, hafi verið sá eini sem ræddi málið við hann.
Valtýr segir að hann eigi enn eftir að átta sig á breyttri stöðu. „En nú tekur við atvinnuleit,“ segir hann. „Þetta var nú meiri áramótagjöfin.“