Landvernd hefur kært auglýsingar Norðuráls, sem lesnar hafa verið í útvarpi og sjónvarpi yfir hátíðirnar, til Neytendastofu. Einnig ítarlegri heilsíðuauglýsingu sem birtist í sérblaði Morgunblaðsins.
Hafa samtökin óskað eftir því að Neytendastofa hlutist til um að auglýsingarnar verði stöðvaðar tafarlaust, segir í tilkynningu frá Landvernd.
Þar segir að í auglýsingunum hafi verið settar fram ósannar, ófullnægjandi og villandi upplýsingar sem brjóti í bága við lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
„Í auglýsingum Norðuráls koma meðal annars fyrir eftirfarandi fullyrðingar sem samtökin gera athugasemdir við: „Málmur af norðurslóð“ er röng eða í besta falli villandi fullyrðing. „Norðurál notar umhverfisvæna orku“ er afar umdeild fullyrðing. Setningarnar „….málminn má endurvinna nánast endalaust“ og „Það má endurvinna áldósir allt að hundrað sinnum“ eru villandi í samhenginu. „Álið okkar…“ er væntanlega með vísun í Norðurslóðir og Ísland (a.m.k. í heilsíðuauglýsingu) og er því villandi. „….er/sé einhver grænasti málmur í heimi“ er ósönn fullyrðing,“ segir í tilkynningunni.