Mánaðarlaun bankastjóra Landsbankans hækka um rúmlega 565 þúsund í kjölfar úrskurðar kjararáðs fyrr í þessum mánuði. Heildarlaun eru um 1.950 þús. eftir hækkunina og hækka um 41%. Hækkunin er afturvirk til 1. desember.
Þetta er þriðja launahækkun bankastjórans frá ársbyrjun 2009, en bankinn var stofnaður 2008.
Laun bankastjórans voru hækkuð í tæplega 1.159 þúsund krónur í mars 2010 og svo aftur í 1.384 þúsund krónur með úrskurði kjararáðs í lok júní 2013, sem var afturvirkur frá og með 1. júní 2012. Launin hækkuðu þá um 19,5%, eða um 226 þús. Fram kom í úrskurði kjararáðs sumarið 2013 að því hefði borist bréf dagsett 22. maí 2012 frá bankaráði Landsbankans þar sem óskað var eftir „endurskoðun launakjara bankastjórans“. Þau hefðu enda ekki verið „í samræmi við ábyrgð, starfsskyldur, vinnuframlag og árangur í starfi“. „Raunverulegur vinnutími bankastjóra utan dagvinnu hafi að jafnaði verið yfir 90 klst. á mánuði og bendi allt til að svo verði áfram.“
Á sama hátt barst kjararáði bréf dagsett 20. nóvember 2014 frá bankaráði Landsbankans, þar sem sömu sjónarmið voru viðruð af hálfu bankans: „Raunverulegur vinnutími bankastjóra utan dagvinnu hafi að jafnaði verið á bilinu 100-120 klst. á mánuði...Engin rök standi til þess að kjararáð ákvarði bankastjóra Landsbankans lakari laun og starfskjör en þau sem hafi verið ákvörðuð fyrir seðlabankastjóra eða forstjóra Landsvirkjunar,“ sagði þar m.a.
Laun bankastjóra hinna viðskiptabankanna heyra ekki undir kjararáð.
.