Myndband vekur úlfúð Íslendinga

Úr stiklunni fyrir ferðalagið.
Úr stiklunni fyrir ferðalagið. Skjáskot

Myndband ungu bresku ferðalanganna, þar sem þeir tala um ferðalagið sitt „The Coldest Crossing“, hefur vakið mikla athygli eftir að þeim var komið til bjargar í þriðja og síðasta skiptið. Myndbandið var gert áður en ferð þeirra á Íslandi hófst og átti að þjóna til upphitunar fyrir ferðalagið.

„Við munum upplifa hitastig á borð við -20 og -30 gráður. Við munum bera allan okkar búnað sjálfir sem mun vega fimmtíu kíló. Við förum sjálfir yfir ár og það verður engin bifreið til aðstoðar,“ segir einn þeirra. „Við verðum gjörsamlega sjálfbjarga.“

„Við verðum þeir yngstu, fljótustu og opinberlega þeir fyrstu til að fara yfir Ísland, án stuðnings og að vetrarlagi,“ segir annar.

Frétt mbl.is: Þyrla sækir bresku göngugarpana

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti bresku ferðalangana.
Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti bresku ferðalangana. mbl.is/Eggert

Tækifæri til að fá blöðrur á fæturna

„Þetta er mitt persónulega tækifæri til að fá blöðrur á andlitið, blöðrur á fæturna og mögulega kal, augnlokin mín gætu frosið aftur og tennurnar gætu dottið úr mér,“ segir einn ferðalanganna í myndbandinu og virðist spenntur fyrir ævintýrinu.

„Við ætlum að sanna fyrir öllum að þú þurfir ekki að vera þvílíkur ævintýramaður, hermaður, Bear Grylls eða Sir Ranulph Fiennes til að fara og gera eitthvað geggjað eins og þetta.“

Svo fór, eins og áður hefur komið fram, að Bretunum var bjargað áður en þeir náðu að klára leiðangur sem átti að vera sögulegur að þeirra sögn. Fregnir af þessu hafa borist út fyrir landsteinana og fjallar breski miðillinn Daily Mail meðal annars um málið.

Frétt mbl.is: Voru orðnir kaldir og hraktir

Félagarnir fjórir á hálendi Íslands.
Félagarnir fjórir á hálendi Íslands.

Margir Íslendingar eru ómyrkir í máli þegar þeir gera athugasemdir við myndbandið á Youtube. Hrósar einn þeim fyrir afrekið. „Vel gert. Það þurfti aðeins að bjarga ykkur þrisvar.“

Annar minnir þá á að íslensku björgunarsveitirnar séu fjármagnaðar af almenningi, og að þeir sem björguðu þeim fái engin laun fyrir. „Hversu mikið þjórfé gáfuð þið þeim? Þyrluferð kostar ein þrjú þúsund pund,“ segir hann og bætir við: „Þið hljótið að skilja, það er fjöldi fólks sem óskar ykkur alls ills.“

Frétt mbl.is: Eðlilegt að ferðamenn kaupi tryggingu

Myndbandið er vægast sagt tilþrifamikið þar sem Bretarnir, sem eru 19 til 20 ára að aldri, reifa ýmis heimspekileg ráð áhorfendum til handa. Sjón er sannarlega sögu ríkari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert