Tveir hafa nú verið handteknir í tengslum við rannsókn á vopnuðu bankaráni í útibúi Landsbankans við Borgartún í dag. Þetta staðfestir Kristján Ólafur Guðnason aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is. Að sögn Kristjáns stendur enn leit yfir af tveimur mönnum til viðbótar.
Kristján gat ekki staðfest að mennirnir tveir sem handteknir hafa verið séu mennirnir sem rændu bankann í dag.
Víðtækar leitaraðgerðir lögreglu og sérsveitar ríkislögreglustjóra hófust á fjórða tímanum í dag. Þyrla Landhelgisgæslunnar tók einnig þátt í leitinni en svo virðist sem leitinni hafi verið lokið á sjöunda tímanum. Að sögn blaðamanns mbl.is sem staddur var í Öskjuhlíð var þá enga lögreglumenn eða lögreglubíla að sjá.