Engar hreinar skuldir innan tíu ára

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Eggert Jóhannesson

Allt bendir til þess að bein útgjöld ríkissjóðs vegna falls bankanna og endurreisnar þeirra verði að fullu endurheimtur. Með því gefst einstakt tækifæri til að létta á mikilli skuldabyrði ríkisins. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, telur það raunhæft markmið að ríkissjóður beri engar hreinar skuldir innan tíu ára.

Í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu segir Bjarni að stór áfangi hafi náðst á árinu með því að slitabú fallinna fjármálafyrirtækja gerðu nauðasamninga og gengust undir stöðugleikaskilyrði stjórnvalda. Stefnt sé að afnámi hafta á næsta ári.

Áhrifin af stöðugleikaframlögunum séu verulega jákvæð fyrir ríkissjóð en samkvæmt fjárlögum sé gert ráð fyrir 350 milljarða afgangi á rekstrargrunni á næsta ári. Allt bendi því til þess að ríkið endurheimti að fullu útgjöld vegna falls bankanna og endurreisnar þeirra, þar með talið tap Seðlabankans sem kallaði á styrkingu eiginfjár hans.

„Einstakt tækifæri gefst með þessu til að létta mikilli skuldabyrði ríkisins á næstu árum og vandfundin dæmi um jafn kraftmikinn viðsnúning og hraða skuldalækkun og stefni í hér á landi. Við getum nú sett raunhæf markmið um að ríkissjóður beri engar hreinar skuldir innan tíu ára,“ skrifar Bjarni í grein sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert