Gæfurík þjóð í góðu landi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum gæfurík þjóð í góðu landi. Við höfum náð árangri með þrautsegju og skynsemi að leiðarljósi. Þótt veður séu válynd er bjart yfir landinu okkar við þessi áramót,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í áramótaávarpi sínu í kvöld. Sagði hann íslenskt samfélag virka vel og í krafti þess væri hægt að halda áfram að bæta það.

„Látum engan telja okkur trú um að Ísland sé vonlaust og hér þurfi að snúa öllu á hvolf,“ sagði Sigmundur og bætti við: „Framfarir byggjast á því að kunna að meta það sem gefst vel og læra af mistökunum og gera svo meira af því sem virkar og minna af hinu.“ Sagði hann að mestu hætturnar sem Íslendingar stæðu frammi fyrir væru kæruleysi, neikvæðni og að litið væri á þann árangur sem hefði náðst sem sjálfgefinn.

Farsælt ár fyrir íslensku þjóðina að líða

Sigmundur sagði árið sem er að líða hafa verið farsælt fyrir íslensku þjóðina. Flest hafi gengið henni í hag undanfarin misseri. Þannig hafi hagsæld aukist til mikilla muna á árinu. Kaupmáttur hefi aukist um 13% á 30 mánuðum en fáheyrt og nær óþekkt væri að hagur fólks vænkaðist svo hratt. Þá hafi jöfnuður aukist á tímum mikils hagvaxtar.

„Þannig hafa laun verkafólks hækkað hlutfallslega meira en laun stjórnenda, laun kvenna hækkað hlutfallslega meira en laun karla og kaupmáttur lífeyrisgreiðslna og bóta aukist meira en kaupmáttur launa á tímabilinu,“ sagði forsætisráðherra. Stutt væri ennfremur síðan skuldavandi hafi staðið efnahagslegri framtíð landsins þrifum. Nú væri skuldastaða íslenskra heimila hlutfallslega lægri en í mörgum nágrannaríkjum Íslands.

Hægt að gerbreyta efnahagslegri stöðu Íslands.

Sigmundur ræddi einnig um uppgjör slitabúa föllnu bankanna og losun fjármagnshafta. Áætlun stjórnvalda myndi gerbreyta efnahagslegri stöðu Íslands og möguleikum þjóðarinnar til framtíðar. Gera mætti ráð fyrir að hrein skuldastaða landsins gagnvart útlöndum færi úr því að vera verulega hættulega neikvæð í að vera jákvæð á fáeinum árum. Staða þjóðarbússins yrði þá sú besta í hála öld. Það væri ótrúlegur viðsnúningur á skömmum tíma.

„Þetta þýðir að við verðum í aðstöðu til að gera betur á komandi árum á öllum þeim sviðum sem skipta okkur mestu máli. Ef við höldum okkar striki og sameinumst um að verja efnahagslegan stöðugleika og skynsamlega uppbyggingu munum við geta haldið áfram að bæta heilbrigðiskerfið, styrkja innviðina um allt land og bæta kjör allra hópa samfélagsins,“ sagði ráðherrann.

Mikilvægt að árangurinn sé hvatning

Forsætisráðherra sagði að á nýju ári réðist hvort Íslendingum auðnaðist að byggja áfram upp á grunni þess árangurs sem þegar hefði náðst. „Til þess að svo megi verða munum við þurfa samstöðu um að halda áfram á þeirri braut sem hefur reynst okkur svo vel. Hluti af því er að við viðurkennum árangurinn og látum hann þannig verða okkur að hvatningu.“

Sigmundur lagði áherslu á að íslensku þjóðinni gengi vel í samanburði við aðrar þjóðir og í samanburði við aðra tíma í sögu hennar. „En um leið fylgjumst við með erfileikum annarra og viljum láta gott af okkur leiða sem víðast. Því meiri árangri sem við náum heimafyrir þeim mun betur getum við hjálpað öðrum.“ Mikilvægt væri í því sambandi að láta árangurinn verða hvatningu til að gera enn betur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert