Karlmaður um tvítugt hefur játað aðild að vopnuðu ráni í útibúi Landsbankans í Borgartúni í gær. Hann gaf sig sjálfur fram við lögreglu í gær eftir að lýst var eftir honum. Annar maður á sama aldri sem var handtekinn í nótt er jafnframt grunaður um aðild að ráninu, að því er kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Mennirnir tveir hafa báðir áður komið við sögu hjá lögreglu. Yfirheyrslur standa nú yfir, en rannsókn málsins er sögð miða vel. Búast má við að lögreglan leggi fram gæsluvarðhaldskröfu síðar í dag.
Líkt og fram hefur komið barst tilkynning um ránið kl. 13.22 í gær, en ræningjarnir komust undan með óverulega fjármuni. Strax í kjölfarið hófst umfangsmikil leit lögreglu að mönnunum. Bíllinn, sem var notaður við ránið, fannst í Hlíðunum í Reykjavík, en hann reyndist stolinn. Síðar fannst hnífur og eftirlíking af skammbyssu sem lögregla telur að hafi verið notað við ránið. Lögreglan hefur lagt hald á hluta af ránsfengnum.
Þrír aðrir menn voru handteknir í þágu rannsóknarinnar í gær, en þeir eru ekki grunaðir um aðild að ráninu sjálfu. Við húsleit á heimili tveggja þeirra fundust fíkniefni sem lögreglan telur að hafi verið ætluð til sölu.
Lögreglan vill þakka sérstaklega fyrir fjölmargar ábendingar sem henni bárust í kjölfar myndbirtinga í fjölmiðlum og á fésbókinni.