Sætta sig ekki við góðar fréttir

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Afmarkaður en hávær hópur fólks á erfitt með að sætta sig við góðar fréttir og jákvæð þróun vekur hjá honum gremju, að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra. Nefnir ráðherrann deilur um tölur Hagstofunnar um brottflutta Íslendinga máli sínu til stuðnings.

Í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu segir Sigmundur Davíð ennfremur að þessi hópur líti jákvæða þróun hornauga og hún veki hjá honum tortryggni á allan mögulegan hátt.

„Þetta er sá hópur fólks sem getur ekki sætt sig við að jákvæðir hlutir gerist ef þeir gerast ekki í krafti hinnar einu „réttu“ hugmyndafræði,“ skrifar forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins.

Segir suma hafa ógnað embættismönnum

Lýsandi dæmi um þetta segir hann þegar hópi fólks, sem hann tilgreinir ekki nánar, hafi gramist að Hagstofa Íslands skyldi benda á að engin markverð breyting hafi orðið á hlutfalli Íslendinga á mismunandi aldursbili sem fluttu frá landinu á þessu ári. Hlutfall brottfluttra hafi reynst lágt á meðal fólks undir fertugu í samanburði við liðin ár og áratugi.

Hinu gagnstæða hafi áður verið haldið fram sem neikvæðri þróun og segir forsætisráðherra að það hafi verið notað sem haldreipi í straumi jákvæðrar þróunar í samfélaginu. Þegar Hagstofan hafi síðan birt tölfræði sem sýndi fram á annað hafi „neikvæði hópurinn“ brugðist hinn versti við og sumir hafi jafnvel gengið svo langt að ráðast á Hagstofuna.

„Svo langt voru sumir til í að ganga til að verja hina neikvæðu heimsmynd sína að þeir voru tilbúnir til að beita embættismenn ógnunum, embættismenn hjá stofnun sem birtir tölfræði. Þar skyldu menn búast við árásum ef birtar yrðu tölur sem ekki féllu að hinni dökku heimsmynd,“ skrifar Sigmundur Davíð í grein sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert