Þorkell Ásgeir Jóhannsson, flugstjóri hjá Mýflugi, lenti í tvígang á neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar í gær.
„Í bæði skipti vorum við í svokölluðu forgangsflugi 1 þar sem um lífsógn er að ræða. Í fyrra fluginu voru aðstæður þannig að við hefðum ekki getað lent með alvarlega slasaðan sjúkling á suðvesturhorni landsins ef ekki væri fyrir neyðarbrautina. Í seinna fluginu var veðrið aðeins farið að ganga niður en aðstæður engu að síður metnar þannig að best væri að lenda á neyðarbrautinni,“ segir Þorkell en Mýflug hefur flogið tæplega 600 sjúkraflugferðir á þessu ári.
Í Morgunblaðinu í dag segir Þorkell, að eingöngu sé lent á neyðarbrautinni þegar aðstæður eru slíkar að annaðhvort er of hættulegt að lenda á öðrum brautum eða hreinlega ómögulegt.