Stjórnendur lífeyrissjóðanna hafa væntingar um að Seðlabankinn veiti þeim auknar heimildir á næsta ári til að fjárfesta á erlendum mörkuðum.
Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, segir áhyggjuefni að eignir sjóðanna erlendis séu að minnka sem hlutfall af heildareignum.
Hann bendir á að erlendar eignir lífeyrissjóða í samanburðarlöndum séu 30 til 40%. Íslenska hagkerfið sé tiltölulega einhæft og því geti samdráttur haft víðtæk áhrif. Hér á landi sé innflutningur stór hluti af neyslu og þetta tvennt geri það að verkum að æskilegt sé að erlendar eignir séu a.m.k. um 40% af eignum sjóðanna. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Gunnar að vegna umfangs lífeyrissjóðanna geti erlendar fjárfestingar haft jákvæð áhrif á hagkerfið til lengri tíma.