Aðstoða fjölskyldur Íslendinganna

Fortaleza er á norðausturströnd Brasilíu.
Fortaleza er á norðausturströnd Brasilíu. Kort/Google

Utanríkisráðuneytið mun aðstoða aðstandendur Íslendinganna sem handteknir voru í Brasilíu við að afla upplýsinga um málið. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu geta stjórnvöld hér á Íslandi ekki haft bein afskipti af málinu sem slíku og þurfa aðilar málsins eða aðstandendur þeirra að óska þess að eigin frumkvæði að fá þjónustu ráðuneytisins. Það hafa aðstandendur gert í þessu máli.

Um er að ræða 26 ára karl­mann og 20 ára konu.

Málefni Íslendinga í Brasilíu heyra undir sendiráðið í Washington. Þrír ræðismenn eru í Brasilíu en þeir eru allir staddir fjarri Fortaleza þar sem að fólkið var handtekið. Utanríkisráðuneytið þarf að fá upplýsingar frá stjórnvöldum í Brasilíu um málið áður en ákveðið verður með framhaldið. Það fer eftir umfangi málsins hvort hægt sé að vinna það í gegnum síma eða tölvupósta. Enn hefur ekki verið til umræðu að senda ræðismann til Fortaleza.

Eins og áður sagði getur utanríkisráðuneytið aðstoðað aðila máls og aðstandendur þeirra með að afla upplýsinga um málið og tryggja að þær berist, til dæmis með því að fá þjónustu túlks eða lögmanns. Það verður þó að vera að frumkvæði aðilanna sjálfra. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er sú þjónusta sem það getur veitt í raun takmörkuð þar sem að ráðuneytið getur ekki afskipti af sjálfu málinu.

Samkvæmt lögregluyfirvöldum reyndust Íslendingarnir hafa fjögur kíló af kókaíni í fórum sínum, en efnið var falið í smokkum og farangri þeirra. Lögreglu var gert viðvart um fólkið þann 26. desember, en fram kom að þau hefðust við á móteli í Fortaleza. Þegar þangað var komið fékk lögregla upplýsingar um að fólkið hefði flutt sig á annan gististað, þar sem þess var vitjað.

Auk fíkniefnanna gerði lögregla upptæka spjaldtölvu, tvo farsíma og 1.600 íslenskar krónur. Parið er sagt hafa ráðgert að fljúga burt um alþjóðaflugvöll.

Frétt mbl.is - Íslendingar handteknir í Brasilíu 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert