Auknu álagi fylgja ný tækifæri

Helgi Hrafn Gunnarsson, alþingismaður.
Helgi Hrafn Gunnarsson, alþingismaður. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Helgi Hrafn Gunnarsson, alþingismaður, sagði í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að Píratar muni halda áfram að berjast fyrir auknum lýðræðislegum og borgaralegum réttindum á nýju ári. Helgi Hrafn var kosinn stjórnmálmaður ársins af lesendum Vísis með 22% atkvæða.

Aðspurður um það hvort áhrif Pírata séu meiri en þingstyrkur flokksins segi til um segir Helgi að lengi hafi verið undirliggjandi krafa um breytingar á kerfinu sjálfu. Þær breytingar sem Píratar boði séu ekki endilega nýjar hugmyndir heldur sé verið að leggja áherslu á hugmyndir sem aðrir flokkar hafi ekki gert hingað til.

Hann segir Pírata vera afl sem kom til á 21. öldinni sem svar við þeim vandamálum sem nú þarf að leysa. Nú þróist stjórnvöld hægar en tæknin og því þurfi að leggja mestu áhersluna á borgaraleg réttindi og lýðræðismál. „Þetta eru þau vandamál sem við teljum að þurfi að leysa og þau vandamál sem við teljum brýnast að leysa.“

Segir kerfið vandamálið 

„Við erum flokkur sem stólum á það að vinna með öðrum flokkum við það að leysa úr verkefnum. Við nálgumst stjórnmál út frá þeirri grundvallarhugmynd að það sé undirliggjandi kerfið sem að sé vandamálið, ekki það að við séum með lausn við öllum vandamálum sem steðji að í samfélaginu. Við erum með stefnu í ýmsum málum en okkar aðal áhersla er ekki að taka alltaf bestu ákvarðanir heldur að laga það sem gerir að verkum að bestu ákvarðanirnar séu teknar.“

Hann segir flokkinn vilja passa að samfélagið þróist í átt til lýðræðis og borgaralegra réttinda samfara tækniþróun. Síðan þegar komi að öðrum málefnum leggi flokkurinn grunnin að því út frá þessum sjónarmiðum. Grunnstefna flokksins sé í raun sú að taka upplýstar ákvarðanir út frá gögnum og staðreyndum óháð því hvaðan þær koma. „Við ættum því að geta mótað okkar stefnu og skoðanir sama úr hvaða flokki þær koma.“

Helgi Hrafn ætlar sér í framboð í prófkjöri Pírata í vor. Hann segir störf þingsins fjölbreytt en vinnulagið vont. Þá segir hann álag á flokk sinn hafa aukist með auknu fylgi undanfarin misseri en því fylgi einnig ný tækifæri. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert