Íslenska lögreglan vekur aðdáun víða

Ein myndanna sem getið er í grein Aftenposten en hún …
Ein myndanna sem getið er í grein Aftenposten en hún sýnir þegar stuldur á hreindýrshornum var upplýstur. mbl

Framganga lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á samskiptamiðlum hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana fyrir frumlega og frjálslega nálgun, nú síðast í Noregi. Í umfjöllun norska dagblaðsins Aftenposten segir að lögreglan hafi „vakið stormandi lukku á samskiptamiðlum“.

Í Aftenposten er bent á að Ísland hafi mælst friðsamasta land heims mörg ár í röð. Hér sé enginn her, en 800 manna lögreglulið haldi uppi lögum og reglu. „Þar sem þar er lítið um skipulagða glæpastarfsemi og morð eru fátíð hafa þau tíma til að gefa minna alvarlegum málum gaum. Á Instagram-síðu sinni veitir lögreglan á höfuðborgarsvæðinu innsýn í hvernig dagleg störf lögreglu ganga fyrir sig á einum friðsælasta stað veraldar,“ segir í umfjölluninni.

Til marks um þetta eru birtar ýmsar færslur lögreglunnar á Instagram, þar á meðal þegar stuldur á hreindýrahornum var upplýstur. Þá er þar falleg og hugljúf mynd af tveimur lögregluþjónum sem standa við Tjörnina í Reykjavík og gefa fuglunum brauð. 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu á sér um 161.000 fylgjendur á Instagram og koma þeir víða að. 

Ekki gera neitt heimskulegt

Rætt er við Þóri Ingvarsson sem hefur umsjón með samskiptamiðlanotkun lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir að tveir lögreglumenn, sem fari um á reiðhjólum, beri ábyrgð á Instagram-síðunni. Einu fyrirmælin sem þeir hafi fengið hafi verið: ekki gera neitt heimskulegt. „Þeim hefur tekist vel að sýna að lögreglustarfið snýst fyrst og síðast um samskipti fólks,“ segir Þórir.

Hann svarar neitandi þegar hann er spurður hvort slíkar myndbirtingar gætu orðið til þess að virðing fólks fyrir lögreglunni gæti minnkað. „Sumum finnst að lögreglan sé orðin of mjúk, en því er ég ekki sammála. Þú berð ekki virðingu fyrir fólki sem þú hræðist, þú virðir fólk sem þú veist að þú getur treyst á að vinni vinnuna sína vel.“

Þórir segir mikilvægt að lögregla sýni ekki hættulegri mynd af aðstæðum en tilefni er til. „Glæpatíðni hefur minnkað í hinum vestræna heimi, en fólki finnst þó að glæpir séu sífellt að aukast. Meira að segja finnst mörgum á Íslandi að þeir búi á hættulegum stað. Eitt af markmiðum okkar með því að birta efni á samfélagsmiðlunum er að leiðrétta þessa mynd.“

#kaffitími #þarfekkifilter #hipstercop #impossibleproject

A photo posted by Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu (@logreglan) on Oct 6, 2015 at 9:22am PDT



Þórir Ingvarsson.
Þórir Ingvarsson. mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert