Sá menn hópa sig saman

Frá áramótunum í Köln.
Frá áramótunum í Köln. AFP

Heiðrún Arnarsdóttir segir ógnvænlegt andrúmsloft hafa ríkt í Köln á gamlárskvöld. Heiðrún er búsett í Köln og sá þegar hópur karlmanna safnaðist saman utan við aðalbrautarstöð borgarinnar á nýársnótt þar sem talið er að ráðist hafi verið á um 80 konur. Konurnar voru rændar, beittar ofbeldi og í það minnsta einni var nauðgað.

Frétt mbl.is: Árásirnar virðast skipulagðar

„Ég var að labba í miðbænum með kærastanum mínum. Við vorum mjög hissa á þeirri hegðun sem við sáum,“ segir Heiðrún. „Þetta var kannski dæmigerð áfengishegðun, fólk mjög drukkið og með mikil læti, öskur og slíkt, en það sem mér fannst athyglisvert var að mikill meirihluti mannfjöldans, um 80 til 85 prósent, var karlmenn. Ég spurði sjálfa mig: Hvar eru konurnar?“

Heiðrún veitti því athygli að karlmennirnir hópuðu sig mikið saman og virtust mana hver annan áfram með háreysti og látum. Varð hún m.a. vitni að því þegar tveir menn leituðu á hóp kvenna með káfi.

Segir hún áberandi meirihluta karlmannanna í miðbænum hafa verið af erlendu bergi brotinn, þ.e. ekki frá Þýskalandi, en það hafi hún greint vegna þess að hún hafi varla heyrt nokkurn mann mæla á þýska tungu heldur aðallega á tyrknesku og arabísku.

Hún undirstrikar að hún vilji ekki alhæfa um ákveðna þjóðfélagshópa enda endurspegli aðgerðir ofbeldismanna ekki heil samfélög fólks.

„Ég bý sjálf í hverfi þar sem er mikið um ólíka þjóðernishópa og innflytjendur og mér hefur aldrei fundist ég óörugg. Þetta var bara svo öfgafullt kvöld.“

Heiðrún segir kvöldið hafa verið afar ólíkt þeim gamlárskvöldum sem hún á að venjast á Íslandi enda séu þau fremur fjölskylduvæn. Í miðbæ Kölnar þetta kvöld hafi drykkjulæti hins vegar verið mikil og flugeldum og púðurkerlingum jafnvel verið beint að mannfjöldanum. Mjög fjölmennt hafi verið enda búi rúmlega milljón manna í borginni auk þess sem fjöldi fólks úr nálægum bæjum sótti borgina heim í tilefni áramótanna.

„Ég var farin heim fyrir miðnætti en sá hvernig andrúmsloftið fór stigversnandi. Ég sá mennina hópast saman á torginu og við lestarstöðina. Ég hugsaði að ef við færum ekki heim gætum við lent í mjög hættulegum aðstæðum.“

Heiðrún Arnarsdóttir.
Heiðrún Arnarsdóttir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert