Skjálftarnir hafa ekki meiri þýðingu

Frá Bárðarbungu.
Frá Bárðarbungu. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Þrír jarðskjálftar af stærð þrjú hafa mælst í Bárðarbungu undanfarnar tvær nætur. Sérfræðingur í náttúruvá á Veðurstofu Íslands segist ekki telja að skjálftarnir hafi meiri þýðingu að svo stöddu en vel sé fylgst með Bárðarbungu eins og öðrum eldstöðvum á landinu.

Í nótt varð jarðskjálfti í norðanverðri öskju Bárðarbungu og var hann þrjú stig að stærð. Aðfaranótt mánudags urðu tveir skjálftar, 3,2 og 3,3 að stærð, á svipuðum slóðum.

Sigþrúður Ármannsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að skjálftar af þessu tagi séu ekki óvenjulegir og þeir verði af og til í Bárðarbungu. Almennt virðist tiltölulega rólegt yfir jarðvirkni á landinu þessa stundina.

„Það hefur verið svolítið virkni þarna undanfarið og allnokkrir skjálftar upp á þrjá og kannski rétt rúmlega. Við höfum ekki verið með neina stóra skjálfta, 4 eða 5, eins og var hérna í gosinu. Við fylgjumst bara vel með þessu að sjálfsögðu,“ segir hún.

Fyrri frétt mbl.is: Jörð skelfur í Bárðarbungu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka