Ríkissjóður greiddi í árslok 2015 49,9 milljarða króna inn á skuldabréf Seðlabanka Íslands. Er um að ræða eina stærstu einstöku afborgun af skuldum ríkissjóðs til þessa. Þetta kemur fram á vef fjármálaráðuneytisins.
Í frétt ráðuneytisins kemur fram að afborguninni hafi verið mætt með lækkun á sjóðsstöðu ríkissjóðs hjá Seðlabankanum.
Skuldabréfið var upphaflega gefið út í janúar árið 2009 í þeim tilgangi að styrkja eiginfjárstöðu Seðlabankans. Bréfið er afborgunarbréf og nemur árleg afborgun 5 milljörðum króna. Eftirstöðvar bréfsins eftir afborgunina fyrir áramót er um 90 milljarðar króna og er áætlað að greiða bréfið upp að fullu á árinu 2016. Sjóðsstaða ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands nam um 88,5 milljörðum króna í árslok 2015.
Í lok árs 2015 greiddi ríkissjóður 49,9 milljarða króna inn á skuldabréf Seðlabanka Íslands. Er þetta ein stærsta einstaka afborgun af skuldum ríkissjóðs til þessa. Afborguninni var mætt með lækkun á sjóðsstöðu ríkissjóðs hjá Seðlabankanum.
Auk þessarar greiðslu af skuldabréfinu forgreiddi ríkissjóður einnig stóran hluta af útistandandi erlendum lánum á síðasta ári að upphæð sem nemur um 103 milljörðum króna. Á síðastliðnu ári fyrirframgreiddi ríkissjóður því í heildina um 150 milljarða króna af innlendum og erlendum skuldum. Greiðslurnar hafa að öðru óbreyttu um 7 milljarða króna áhrif til lækkunar vaxtagjalda á ári hverju, eftir því sem kemur fram á vef ráðuneytisins.
Heildarskuldir ríkissjóðs í árslok 2015 eru því áætlaðar 1.349 milljarðar króna til samanburðar við 1.492 milljarðar króna í árslok 2014. Það samsvarar um 10% lækkun skulda á milli ára. Áætlað er að skuldir ríkissjóðs í árslok 2016 verði um 1.171 milljörðum króna.