Eiga 5-15 ára fangelsi yfir höfði sér

Fortaleza er á norðausturströnd Brasilíu í Ceará-ríki.
Fortaleza er á norðausturströnd Brasilíu í Ceará-ríki. Kort/Google

Íslenska parið sem handtekið var í Brasilíu á milli jóla og nýárs grunað um fíkniefnasmygl er í mánaðarlöngu gæsluvarðhaldi. Fólkið situr nú í fangaklefa alríkislögreglunnar en verður brátt fært í ríkisfangelsi. Það gæti átt yfir höfði sér fimm til fimmtán ára fangelsisdóm.

Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is segir Wellington Santiago da Silva, fulltrúi brasilísku alríkislögreglunnar, að parinu sé þessa stundina haldið í stöð alríkislögreglunnar í Ceará-ríki. Það verði brátt fært í fangelsi á vegum alríkisstjórnarinnar.

Lögreglan hafi þrjátíu daga til að ljúka rannsókn sinni en alríkisdómari hafi umsjón með málinu og hafi staðfest gæsluvarðhald yfir fólkinu. Það sé ekki fyrr en rannsókn málsins ljúki sem línur skýrist um fyrir hvað Íslendingarnir verði ákærðir nákvæmlega.

Karlmaðurinn er 26 ára gamall en konan er tvítug að því er komið hefur fram í brasilískum fjölmiðlum. Þegar þau voru handtekin í borginni Fortaleza fundust fjögur kíló af kókaíni í farangri þeirra. Parið var sagt hafa ætlað að fljúga af landi brott.

Samkvæmt upplýsingum utanríkisráðuneytisins hefur það vitneskju um tvo aðra Íslendinga sem sitja í fangelsi í Brasilíu til viðbótar við parið sem var handtekið í desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert