Menningarviðurkenningar Ríkisútvarpsins voru afhentar í dag við hátíðlega athöfn í Útvarpshúsinu við Efstaleiti. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og fleiri voru viðstaddir athöfnina.
Veitt var viðurkenning úr Rithöfundasjóði og styrkir úr Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins og Leiklistarsjóði Þorsteins Ö. Stephensen. Þá veitti Rás 2 Krókinn, verðlaun fyrir framúrskarandi lifandi flutning árið 2015 og sömuleiðis var tilkynnt um val á orði ársins en orðið „fössari“ varð fyrir valinu að þessu sinni.
Auður Jónsdóttir hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf. Fjórir styrkir voru veittir úr Leiklistarsjóði Þorsteins Ö. Stephensen en að þessu sinni var auglýst eftir handriti að frumsömdu útvarpsleikriti og handriti að frumsömdu leiknu sjónvarpsefni.
Þrír styrkir voru veittir fyrir handrit að útvarspleikriti:
• Heiðar Sumarliðason fyrir handrit að útvarpsleikritinu Iðraólga.
• Kristín Eiríksdóttir fyrir handrit að útvarpsleikritinu Illa leikið.
• Salka Guðmundsdóttir fyrir handrit að útvarpsleikritinu Eftir ljós.
Einn styrkur var veittur fyrir handrit að leiknu sjónvarpsefni:
• Hafsteinn Gunnar Sigurðsson og Halldór Halldórsson fyrir handrit að leikinni sjónvarpsþáttaröð sem ber nafnið Afturelding.