Mikil vaxta- og sóknarfæri liggja í auknum útflutningi á ferskum hágæða sauðfjárafurðum. Lykillinn í þeim efnum er aukið samstarf um kynningu og vörumerkjavæðingu sauðfjárafurða með áherslu á gæði, uppruna og sérstöðu að því er segir í fréttatilkynningu frá Landsambandi sauðfjárbænda þar sem vísað er í niðurstöður greiningar KOM ráðgjafar á markaðstækifærum í útflutningi á íslenskum sauðfjárafurðum fyrir Markaðsráð kindakjöts.
Ennfremur kemur fram í greiningu KOM ráðgjafar að sóknarfæri liggi sömuleiðis í betri nýtingu sauðfjárafurða með sjálfbærni að leiðarljósi. Lagt er til að Markaðsstofa sauðfjárafurða verði sett á laggirnar til að halda utan um kynningar- og markaðsstarfið.
„Með því að flytja lambakjötið út ferskt og markaðsetja það og kynna á völdum mörkuðum sem hágæða ferskt íslenskt lambakjöt undir einu vörumerki er mögulegt að styrkja íslenskan landbúnað til muna og auka tekjur sauðfjárbænda. Það sama gildir um framleiðslu og útflutning á ull og gærum,“ segir í tilkynningunni.
Vegna aukinnar eftirspurnar eftir ferskum og náttúrulegum afurðum í heiminum sé jafnframt mögulegt að fá hærra verð fyrir afurðirnar.