Skjaldarmerki Reykjavíkurborgar er notað í auglýsingu flugelda.com sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Upplýsingastjóri borgarinnar segir þetta óheppilega notkun á merkinu. „Ég hef haft samband við söluaðilann og farið þess á leit við hann að skjaldarmerkið verði tekið úr auglýsingum,“ segir Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar í samtali við mbl.is. Bendir Bjarni á að það sé aðeins Reykjavíkurborg sem er heimilt að nota merkið í auglýsingum.
Samkvæmt reglum um notkun á skjaldarmerki Reykjavíkurborgar sem samþykktar voru í borgarráði árið 2004 er öðrum en borgarstjóra, borgarfulltrúum, starfsmönnum og stofnunum Reykjavíkurborgar óheimilt að nota merki borgarinnar, nema með ákveðnum undantekningum. Til að mynda mega félög um borgarmálefni nota merkið að fengnu leyfi Reykjavíkurborgar. Sama gildir um félög borgarstarfsmanna. Reykjavíkurborg getur þó hvenær sem er krafist þess að merki borgarinnar sé afmáð úr slíku félagsmerki, ef notkun þess kastar rýrð á skjaldarmerkið sjálft eða þykir óheppileg á annan hátt.
Óski einstaklingar eða fyrirtæki eftir því að framleiða varning með merkinu eða merkið sjálft í einhverju formi þarf til þess leyfi borgarinnar. Þá er óheimilt að nota merkið sem hluta af firmamerki eða vörumerki. Stjórnmálaflokkum er þar að auki ekki heimilt að nota merkið og óheimilt er með öllu að nota það til stjórnmálaáróðurs.
Í reglunum kemur jafnframt fram að umsóknum um leyfi til þess að nota skjaldarmerki borgarinnar skulu fylgja a.m.k. tvö sýnishorn eða uppdrættir af merkinu eins og á að nota það.