Stundum er nauðsynlegt að eiga góðan vin sem hlustar á raunir manns. Öðrum stundum nægir að eiga vin sem hlustar á mann lesa. Það er einmitt það sem bestu vinir mannsins ætla að gera á fimmtu hæð Borgarbókasafnsins í Grófinni kl. 15 sunnudagana 17. janúar, 7. og 21. febrúar, 6. og 20. mars og 3. apríl. Þar munu tveir hundar sem eru sérstaklega þjálfaðir til að hlusta á börn lesa hlýða á börn lesa sér til ánægju fyrir tilstuðlan félagsins Vigdísar – Vini gæludýra á Íslandi.
„Félagið Vigdís er aðili að lestrarverkefninu R.E.A.D – Reading Education Assistance Dogs sem starfar um allan heim með um fjögur þúsund sjálfboðaliðum með það að markmiði að efla læsi barna með því að hvetja þau til yndislesturs. Lestrarstundir með hundi reynast börnum vel og ekki síst þeim sem eiga við lestrarörðugleika að stríða,“ segir í tilkynningu frá Borgarbókasafninu. „Hundurinn gagnrýnir ekki barnið á meðan á lestrinum stendur, hjálpar því að slaka á og liggur rólegur á meðan lesið er. Sjálfboðaliðinn sem á hundinn ræðir síðan við barnið um innihald bókarinnar til að aðstoða og tryggja betri lesskilning.“
Átta börn komast að í hvert skipti og fær hvert barn að lesa fyrir hundinn í 15 mínútur.
Foreldrar þurfa að bóka tíma fyrirfram fyrir börnin með því að senda tölvupóst á Þorbjörgu Karlsdóttur, verkefnisstjóra á netfangið thorbjorg.karlsdottir@reykjavik.is eða með því að hringja í síma 411 6146.