Stjórnarskrárnefnd fundar í dag og aftur næsta mánudag. Kapp er lagt á að ná sameiginlegri niðurstöðu hinnar þverpólitísku nefndar um tillögur um stjórnarskrárbreytingar.
Nefndin hyggst skila forsætisráðherra tillögum sínum áður en Alþingi kemur saman á nýjan leik, sem verður þann 19. janúar nk.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins eru enn nokkur álitamál í umfjöllun nefndarinnar, sem ekki hefur náðst sátt um. Þar má nefna ákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðslu, en ekki er sátt um það í nefndinni, hversu víðtækt það eigi að vera og hvers konar lög frá Alþingi 15% kosningabærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um.