Það þarf öflugt eftirlit með starfsemi lögreglu og slíkt væri til hagsbóta fyrir lögreglumenn og samfélagið. Því miður eru svartir sauðir alls staðar, líka hjá lögreglunni, þótt 99% lögreglumanna vilji gera allt sem þeir geta til að viðhalda sem mestu trausti á embættið. Vegna þessa er aukið eftirlit nauðsynlegt. Þetta kemur fram í pistli Runólfs Þórhallssonar, aðalvarðstjóra, í Lögreglublaðinu, en Lögreglufélag Reykjavíkur gefur blaðið út.
Í pistlinum fer Runólfur yfir eftirlit með lögreglu í víðara samhengi og segir að þó eitthvað sem um kærur og kvartanir á hendur lögreglumönnum séu flestar þeirra tilefnislausar eða byggðar á misskilningi á valdheimildum lögreglu.
Þá hnýtir hann í samfélagsumræðu á Íslandi sem hann segir óþroskaða. „Það virðist því miður vera jarðvegur fyrir ótrúlegar ásakanir sem komast ekki einu sinni á þann stað að vera tilhæfulausar, hvað þá meira. Sorinn og andlegur niðurgangur athugasemdakerfanna þar sem sömu nöfnin hvað eftir annað fá útrás fyrir eigin erfiðleika, bætir engu gagnlegu við umræðuna en sýnir vissulega eina hlið samfélagsins af mörgum.“
Þá segir hann verjendur og mannréttindalögfræðinga eiga ótrúlega greiðan einhliða aðgang í fjölmiðla þar sem þeir geti „fabúlerað að vild og ásakað lögreglu og ákæruvald um allskonar misgjörðir.“ Segir hann enga tilraun gerða til að halda á lofti sjónarmiðum lögreglu né að rannsaka hvort ásakanirnar eigi rétt á sér.
Runólfur bendir á að vegna þeirrar staðreyndar að lögreglan svari sjaldnast fyrir sig sé augljóst að umræðan sé sjaldan byggð á skynsemi eða staðreyndum.
Þá vísar hann til þeirrar umræðu sem Píratar hafa sett fram um að setja á stofn sérstaka stofnun sem hefur eftirlit með störfum lögreglu. Segir hann Pírata hafa komið sem ferskan blæ inn í pólitískt litróf hér á landi, en að enn eigi eftir að koma í ljós hvort tillaga þeirra sé sprottin af samfélagsumræðu sem oft sé óþroskuð og langsótt, eða af einlægum vilja til að bæta lögregluna.
Runólfur bendir á að um áramótin hafi héraðssaksóknaraembættið tekið við að rannsaka kærur á hendur lögreglu og þá megi skoða hvort efla ætti eftirlitshlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, en að „setja á fót sérstaka stofnun þegar að engir peningar virðast vera til, til að reka lögregluna sjálfa á sómasamlegan hátt er vanhugsað og lyktar af popúlisma.“
Rétt er að geta þess að blaðið kom út í desember og því hefur greinin verið skrifuð fyrir áramót.