Bandarísk stjórnvöld sýna því skilning að viðskiptaþvinganir gegn Rússum hafi áhrif á íslenskan sjávarútveg en telja engu að síður mikilvægt að bandamenn í NATO haldi áfram að standa vörð um nauðsynlegar grundvallarreglur. Þetta skrifar Robert Cushman Barber, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, í grein sem birtist á Facebook-síðu sendiráðsins.
Tilefni skrifa sendiherrans er frétt sem birtist í Morgunblaðinu á mánudag þar sem haft er eftir Jens Garðari Helgasyni, formanni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, að stórveldi eins og Bandaríkin og Þýskaland hafi gert tilslakanir á viðskiptaþvingunum gagnvart Rússum til að liðka fyrir eigin viðskiptum á sama tíma og Íslendingar héldu fast við aðgerðirnar. Mótaðgerðir Rússa gætu kostað Íslendinga 12-13 milljarða á þessu ári.
Sendiherrann segir Bandaríkin staðföst í þeirri trú sinni að halda þurfi refsiaðgerðunum gegn Rússlandi áfram. Þessum refsiaðgerðum hafi verið komið á til þess að bregðast við alvarlegum brotum á alþjóðlegum reglum og fullveldi þjóða á uppbyggilegan og gætinn hátt án þess að grípa til vopna.
„Við treystum öll á og verðum að vernda alþjóðlegt kerfi, sem útheimtir virðingu fyrir fullveldi þjóða. Án þessarar grundvallarreglu stafar hætta að okkur öllum. Þess vegna er mikilvægt að allar þjóðir, sem halda grundvallarlögmál réttarríkisins í heiðri, standi saman,“ skrifar Barber.
Jens Garðar sagði einnig í Morgunblaðinu á mánudag að sér þætti grátlegt að sjá efnahagslegu áhrif mótaðgerða Rússa hér á landi í ljósi þess að Bandaríkjamenn hefðu gefið undanþágu frá vopnasölubanninu svo hægt væri að kaupa varahluti í rússneskar herþyrlur í Afganistan.
Bandaríski sendiherrann segir í þessu samhengi að í nóvember 2015 hafi sending á slíkum varahlutum sem afganski herinn þarfnaðist fyrir Mi-17 þyrlur sínar verið leyfð. Þessir varahlutir hafi fallið undir refsiaðgerðir er snúa að takmörkun á útbreiðslu gereyðingarvopna, sem settar voru á samkvæmt bandarískum lögum um slíkar takmarkanir að því er varðar Íran, Norður-Kóreu og Sýrland. Þessir varahlutir falli ekki undir refsiaðgerðir vegna Úkraínudeilunnar. Þessi aðgerð hafi haft þann takmarkaða og ákveðna tilgang að aðstoða öryggissveitir Afgana í baráttu sinni gegn hryðjuverkum.
Bandaríkin, líkt og Ísland og aðrar þjóðir, hafi fundið fyrir afleiðingum refsiaðgerðanna vegna Úkraínudeilunnar og gagnaðgerðum Rússa, skrifar Barber.
„Við vitum að þessu fylgir kostnaður. Sem dæmi má nefna að á milli áranna 2014 til 2015 minnkaði útflutningur frá Bandaríkjunum til Rússlands stórlega vegna refsiaðgerðanna, og varð landbúnaðurinn fyrir mestum skakkaföllum,“ segir hann.
„Við sýnum því skilning að aðgerðirnar hafa haft áhrif á íslenskan sjávarútveg og vitum að þær geta haft þungbær áhrif á sum byggðarlög á landsbyggðinni. Engu að síður teljum við mikilvægt að við sem bandamenn í Norður-Atlantshafsbandalaginu (NATO) höldum áfram að standa vörð um nauðsynlegar grundvallarreglur sem eru í húfi ef við ætlum að draga úr árásargirni og viðleitni til að breyta landamærum með vopnavaldi,“ skrifar sendiherrann.