Vilja færa þungan framar í ferlið

Meginþungi af vinnu stjórnvalda í tengslum við EES-samninginn felst í innleiðingu laga og reglna, en síður við að fylgjast með þegar reglurnar eru samdar á vettvangi Evrópusambandsins. Þessu þarf að breyta og færa vinnuna framar í ferlið til að fá aukin áhrif og svo innleiðing gangi betur fyrir sig innan settra tímamarka. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu stýrihóps um framkvæmd EES-samningsins sem var unnin fyrir forsætisráðuneytið og skilað í dag.

Segir þar að lykilatriði sé að forgangsraða og fylgjast mjög vel með völdum málaflokkum þar sem hagsmunir Íslands eru stærstir.

Helstu áskoranir eru að mati stýrihópsins erfiðleikar við að fylgjast með löggjöf í mótun hjá ESB og hafa efnisleg áhrif á hana, seinagangur við upptöku gerða í EES-samninginn, tafir við innleiðingu gerða í landsrétt, flókið ferli við þinglega meðferð EES-mála og skortur á skýrari ferlum og verkfærum til samhæfingar milli ráðuneyta og samráðs við hagsmunaaðila á sviði EES-mála. Þá leiðir takmarkaður mannafli og sérfræðiþekking hjá ráðuneytum og opinberum stofnunum í samspili við forgangsröðun verkefna til þess að oft reynist vandkvæðum bundið að sinna EES-samningnum sem skyldi. 

Stýrihópurinn kynnti tillögur að úrbótum, en í þeim felst að ríkisstjórnin, í samráði við Alþingi og hagsmunaaðila, búi til lista yfir þau mál í lagasetningarferli hjá ESB, sem metin eru forgangsmál út frá íslenskum hagsmunum. Sérstaklega verði fylgst með þessum málum, sjónarmiðum íslenskra stjórnvalda komið á framfæri og reynt að hafa áhrif eftir megni og tilefni.

Þá er lagt til í skýrslunni að innleiðingarfrumvörp verði auðkennd sérstaklega á þingmálaskrá og sett í forgang. Þá geymi þau að jafnaði einungis ákvæði sem leiðir af viðkomandi EES-skuldbindingu. 

Einnig er lagt til að ráða fjóra starfsmenn í tvö ár til að aðstoða ráðuneytin til að vinna á brýnum upptöku- og innleiðingarhalla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert