Átökin um Eldvörp

Séð yfir gígaröðina í Eldvörpum.
Séð yfir gígaröðina í Eldvörpum. Mynd/Ómar Ragnarsson

Í lok síðasta árs fékk HS Orka framkvæmdaleyfi til að bora rannsóknarholur í nágrenni Eldvarpa á Reykjanesi, en svo heitir gígaröð sem er um 3 kílómetra til vesturs frá Bláa lóninu. Áður hafði þar verið boruð ein hola á níunda áratugnum. Á undanförnum vikum hafa heyrst andmælaraddir þar sem þessum væntanlegu framkvæmdum er mótmælt. Meðal annars hefur komið fram að með þessu sé verið að eyðileggja „merkilegustu jarðminjar svæðisins.“

Þrátt fyrir nálægð við höfuðborgarsvæðið og að vera rétt við einn vinsælasta ferðamannastað landsins hefur umferð um Eldvörpin verið nokkuð takmörkuð og ekki hefur verið lagt upp með fjöldaferðamennsku um svæðið. Mbl.is mun í þessari grein og fleirum um helgina skoða nánar hvað það er nákvæmlega sem eigi að gera á svæðinu, hvaða orkukostir sé líklegir þar og rýna í jarðfræði staðarins og hvað geri hana merkilega fyrir náttúruvernd og mögulega ferðamennsku um svæðið.

Hvað er eyðilegging og hvað ekki?

Hraunið sem Eldvörp liggja í myndaðist í miklum gosum á 13. öld. Er því um eldgos á sögulegum tíma að ræða. Eins og sjá má á mynd sem fylgir fréttinni liggur gígaröðin í suðvestur-norðaustur stefnu og er um 10 kílómetra löng. Í hrauninu sem liggur þar í kring rýkur á sumum stöðum upp gufa og myndar hún nokkuð dulúðlegt andrúmsloft.

Kort af Eldvarpar- og Svartsengissvæðinu.
Kort af Eldvarpar- og Svartsengissvæðinu.
Gígaröðin er á rauðmerkta svæðinu.
Gígaröðin er á rauðmerkta svæðinu.

 Þessi mögulega röskun gígaraðarinnar hefur verið hvað mest gagnrýnd af náttúruverndarfólki, en meðal annar segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, að um sé að ræða „sérstakt jarðfræðifyrirbæri“ þar sem óalgengt sé að finna jarðhita í eldgígum sem þessum. Segir hann að þótt ekki eigi að raska gígunum sjálfum, heldur bora í næsta nágrenni þeirra, þá sé verið að eyðileggja ómanngerða náttúru.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku segir aftur á móti að farið hafi verið eftir öllum leyfisveitingarferlum og leikreglum lýðræðisins við undirbúning málsins og tekið hafi verið mið af athugasemdum, sem meðal annars snerta náttúruvernd. Segir hann ljóst að engir gígar verði eyðilagðir og að passað verði upp á að jarðrask verði sem minnst.

Það er einmitt í þessum skilgreiningarmun sem helsti ágreiningurinn virðist liggja, en Guðmundur vill meina að verið sé að brjóta náttúruverndarlög um verndun hrauna og eldvarpa með framkvæmdaleyfinu og þá sé um óafturkræft rask að ræða sem skemmi ásjón svæðisins. Í framkvæmdaleyfinu og máli Ásgeir má aftur á móti sjá að talið sé að það séu gígarnir sjálfir sem séu helstu náttúruminjarnar og með því að draga sem mest úr raski verði breyting á ásýnd svæðisins takmörkuð mikið.

30-50 megavött og vangaveltur um orkugetu svæðisins

Ef rannsóknir á svæðinu reynast jákvæðar er stefnt að því að virkja jarðhitann á svæðinu, en samkvæmt upplýsingum frá HS Orku væri þá líklegt að fyrst um sinn væri horft til 30 megavatta rafmagnsframleiðslu, með möguleika á að auka hana upp í 50 megavött seinna meir.

Nokkrar gamlar gönguleiðir eru um svæðið.
Nokkrar gamlar gönguleiðir eru um svæðið. Mynd/Ellert Grétarsson

 Næsta virkjun við Eldvörp er í Svartsengi, en þar er nú rafmagnsvirkjun og uppspretta vatnsins sem nýtt er í Bláa lóninu. Eru svæðin í sama eldstöðvarkerfi sem annað hvort er kennt við Svartsengi eða báða staðina. Deilt hefur verið um hvort jarðvarmahólf Eldvarpa og Svartsengis sé hið sama og að þannig væri í raun verið að dæla upp úr sama geyminum ef virkjað yrði í Eldvörpum. Ásgeir segir rannsóknir HS Orku þó sýna fram á annað og bendir meðal annars á að hiti í Eldvörpum sé nokkuð hærri en í Svartsengi, eða 250-270°C á móti 220-230°C í Svartsengi. Þó sé samtenging milli svæðanna, en að ekki sé að nýta sama hitann upp úr báðum holunum.

Líklegt að framkvæmdir hefjist á þessu ári

Framkvæmdarleyfið sem Grindavík veitti HS Orku gildir í eitt ár og er því líklegt að framkvæmdir hefjist innan þess tíma. Staðfestir Ásgeir það, en tekur þó fram að enn hafi ekki verið tekin ákvörðun um hvar fyrst verði borað. Koma tveir staðir helst til greina, en á öðrum staðnum er nú þegar borpallur eins og nefnt var að ofan. Það er þó ekki óalgengt að framkvæmdaleyfi sem þessi séu framlengt og því þarf ekki að vera að strax verði hafist handa við rannsóknir á staðnum.

Ítarlegar verður fjallað um Eldvörp á mbl.is um helgina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert