Vilborg Davíðsdóttir svarar fyrir sig

Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur.
Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur segist ætíð hafa haldið sig til hlés þegar árleg úthlutun starfslauna er tilkynnt og „aurmokstur“ yfir listafólk stendur yfir. En í ár ákvað hún að svara.

„Ég er í hópi þeirra 73 ljónlánsömu rithöfunda á Íslandi sem fengu í gær jákvætt svar við umsókn um starfslaun úr Launasjóði rithöfunda,“ skrifar Vilborg í pistli sem hún birtir á Facebook-síðu sinni. Vilborg sótti í fyrsta sinn um starfslaun árið 1996 og núna, árið 2016, fékk hún starfslaun til tólf mánaða.

Frétt mbl.is: 378 fá listamannalaun

 „Gleði mín er mikil eins og þið getið ímyndað ykkur og hjartað fullt af þakklæti til skattgreiðenda. Ég veit að í hópi þeirra eru einnig margir þakklátir fyrir skáldsögurnar mínar sjö, þýðingarnar þrjár og nú síðast sannsöguna Ástin, drekinn og dauðinn,“ skrifar Vilborg.

Í pistlinum tekur hún svo nokkur dæmi um það sem sagt hefur verið um listamannalaunin á samfélagsmiðlum og svarar þeim.

Vilborg vitnar m.a. í ummæli manns sem segist sjá eftir hveri krónu skattgreiðenda „í þessa hít.“

Svar Vilborgar: „Hér má vitna í orð Bryndísar Loftsdóttur, formanns stjórnar Listamannalauna: ,,Í heildina nemur úthlutunin um 550 milljónum króna í samtals sex sjóði, launasjóði hönnuða, myndlistarmanna, rithöfunda, sviðslistafólks, tónlistarflytjenda og tónskálda. Svo skemmtilega vill til að þessi upphæð er ekki fjarri þeirri sem áætluð sala íslenskra bóka skilaði ríkinu í formi virðisaukaskatts á síðasta ári svo einhvers samhengis sé gætt.“ Í rauninni má því segja að hítin mikla sé greidd eins og hún leggur sig með bókaskattinum einum saman.“

Vilborg endar svo pistil sinn á þessum orðum:

„Sum þeirra sem fella sleggjudóma um okkur sem vinnum við listsköpun hafa atvinnu af því að veiða fisk úr sameiginlegri auðlind okkar allra, fyrir útgerð sem þarf ekki að gjalda þjóðinni nema málamyndaupphæð fyrir. Aðrir starfa við landbúnað sem er niðurgreiddur úr ríkissjóði svo skiptir milljörðum króna. Enn aðrir grafa jarðgöng sem kosta ríkissjóð stórar upphæðir og sumir vinna í umhverfismengandi álverum sem fá raforkuna okkar á miklum afslætti og koma megninu af hagnaðinum úr landi. Ættum við öll að taka okkur til einu sinni á ári og ausa svívirðingum yfir hverja starfsstétt fyrir sig og nefna hana illum nöfnum eins og afætur, blóðsugur, jötulið og skítapakk?“

Hér má lesa pistilinn í heild.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert