Albönsku fjölskyldurnar koma á þriðjudag

Önnur albanska fjölskyldan sem fékk íslenskan ríkisborgararétt.
Önnur albanska fjölskyldan sem fékk íslenskan ríkisborgararétt. Skjáskot/Facebook

Albönsku fjölskyldurnar tvær sem nýverið fengu íslenskan ríkisborgararétt eru væntanlegar til landsins eftir hádegi á þriðjudag, segir Hermann Ragnarsson sem hefur staðið að því undanfarið að undirbúa komu þeirra hingað.

Fjölskyldurnar munu fljúga hingað frá London í boði WOW Air og segir Hermann í samtali við mbl.is allt orðið klárt til þess að taka við þeim. „Íbúðirnar eru klárar en ætli ég skelli þeim ekki á hótel fyrstu nóttina. Svo græja þau íbúðirnar með okkur en húsgögn og allt saman eru klár.“

Undanfarið hefur staðið yfir söfnun á Facebook til styrktar málefninu að koma fjölskyldunum hingað og koma undir þær fótunum. Bæði fé og munir hafa safnast og munu fjölskyldurnar því hafa úr ýmsu að moða þegar þær koma sér fyrir. „Það er allt klárt, það er bara að fara á bíl og sækja það,“ sagði Hermann.

Þá sér loks fyrir endann á langri þrautagöngu en erfiðasta kaflann segir Hermann hafa verið gagnaöflun frá Albaníu í aðdraganda þess að hópurinn hlaut ríkisborgararétt. „Sakavottorð, fæðingarvottorð, hjúskaparvottorð, bara nefndu það. Svo að þýða þetta allt saman. Þetta var svo stuttur tími nefnilega en það var albanskur þingmaður sem hjálpaði mikið til í því. Svo hef ég haft náttúrlega góða lögfræðinga til að hjálpa mér við þetta.“

Hermann Ragnarsson
Hermann Ragnarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert